18. des. 2020

,,Mozart við kertaljós" í beinni útsendingu frá Garðakirkju

Tónleikar kammerhópsins Camerarctia ,,Mozart við kertaljós" verður að þessu sinni streymt frá Garðakirkju þriðjudaginn 22. desember kl. 21 í boði menningar- og safnanefndar Garðabæjar. 

  • Mozart við kertaljós
    Mozart við kertaljós

Mozart við kertaljós verður að þessu sinni streymt frá Garðakirkju í Garðabæ en í 28 ár hefur kammerhópurinn Camerarctica haldið slíka tónleika í fjórum kirkjum. Mörgum hefur þótt ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin til að hlýða á dásamlega tónlist Mozarts.

Að þessu sinni verður eingöngu boðið upp á rafræna tónleika úr Garðakirkju, þriðjudaginn 22. desember og hefjast tónleikarnir kl. 21:00. Tónleikunum verður streymt frítt á fésbókarsíðu Garðabæjar og á vimeo rás með rafrænu menningarefni Garðabæjar.

Camerarctica skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason, klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Bryndís Pálsdóttir fiðluleikari, Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari og Sigurður Halldórsson, sellóleikari en tónleikarnir verða helgaðir minningu Hallfríðar Ólafsdóttur stofnanda tónleikaraðarinnar.

Á efnisskránni er hinn þekkti Klarinettukvintett Kv. 581 og að venju lýkur tónleikunum á jólasálminum góða,” Í dag er glatt í döprum hjörtum”, sem er úr Töfraflautu Mozarts en þekktur hér á landi sem jólasálmur.

Tónleikarnir eru gestum að kostnaðarlausu og fólk hvatt til að slökkva ljósin, kveikja á kertum og styrkja gott málefni. Tónleikarnir eru kostaðir af menningar- og safnanefnd Garðabæjar og auk þess styrktir af Tónlistarsjóði.