8. des. 2022

Mygla greindist í Flataskóla - starfsemi frístundaheimilis færist innan skólans

Starfsemi frístundaheimilis Flataskóla mun verða færð þar sem mygla hefur greinst þar í kjölfar sýnatöku. Einnig mun kennslustofu sem Tónlistarskóli Garðabæjar hefur haft til afnota verða lokað þar sem mygla greindist. Kennsla sem fór fram í stofunni færist einnig innan skólans.

  • Flataskóli
    Flataskóli

 Starfsemi frístundaheimilis Flataskóla mun verða færð þar sem mygla hefur greinst þar í kjölfar sýnatöku. Einnig mun kennslustofu sem Tónlistarskóli Garðabæjar hefur haft til afnota verða lokað þar sem mygla greindist. Kennsla sem fór fram í stofunni færist einnig innan skólans.

 Í framhaldi af ábendingum um loftgæði í Flataskóla voru tekin sýni í október 2022 og þau send í greiningu. Samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar Mannvits lítur húsið almennt út fyrir að vera í góðu ástandi en vísbendingar voru um rakaskemmdir á afmörkuðum svæðum samkvæmt niðurstöðu sýnatöku. Mygla greindist undir gólfdúk á þremur stöðum, í inngangi í frístund, úr eldhúsi í frístund og á gangi í vörumóttöku. Í ryksýnum sem voru tekin er ástæða til að skoða nánar þrjár kennslustofur og einn tengigang.

 Til að gæta að fullu öryggi starfsfólks og nemenda mun verkfræðistofan Mannvit ráðast í áframhaldandi mælingar á húsnæði Flataskóla. Gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirra mælinga liggi fyrir fljótlega eftir áramót.

Mannvit vinnur með bæjaryfirvöldum að aðgerðar- og kostnaðaráætlun vegna viðgerða á skólanum.