7. des. 2022

Mygla greindist í Hofsstaðaskóla -kennsla raskast óverulega

Fimm kennslustofum í Hofsstaðaskóla í Garðabæ hefur verið lokað þar sem mygla greindist í þeim í kjölfar sýnatöku í síðasta mánuði. Kennsla raskast óverulega vegna þessa og stefna bæjaryfirvöld að því að leigja færanlegar skólastofur sem verður komið fyrir á skólalóðinni strax eftir jólafrí.

  • Hofsstaðaskóli
    Hofsstaðaskóli

Fimm kennslustofum í Hofsstaðaskóla í Garðabæ hefur verið lokað þar sem mygla greindist í þeim í kjölfar sýnatöku í síðasta mánuði. Kennsla raskast óverulega vegna þessa og stefna bæjaryfirvöld að því að leigja færanlegar skólastofur sem verður komið fyrir á skólalóðinni strax eftir jólafrí.

Í framhaldi af ábendingum um loftgæði í Hofsstaðaskóla voru tekin sýni í byrjun nóvember 2022 og þau send í greiningu. Samkvæmt niðurstöðum þeirra fannst mygla undir gólfdúk í þremur kennslustofum. Jafnframt greindist mygla í ryki í tveimur öðrum kennslustofum og hefur öllum fimm kennslustofunum verið lokað. Svo virðist sem rekja megi mygluna til eldri rakaskemmda í skólanum sem búið var að lagfæra.

Til að gæta að fullu öryggi starfsfólks og nemenda mun verkfræðistofan Mannvit ráðast í áframhaldandi mælingar á húsnæði Hofsstaðaskóla. Gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirra mælinga liggi fyrir strax eftir áramót.
Mannvit vinnur með bæjaryfirvöldum að aðgerðar- og kostnaðaráætlun vegna viðgerða á skólanum.