20. mar. 2024

Námskeiðið Tímamót og tækifæri

Að kveðja starfshlutverk sitt og fara á eftirlaun er mikil breyting og Garðabær hefur frá árinu 2016 boðið starfsfólki sínu sem verður 65 ára á árinu eða eru eldri á starfslokanámskeiðið Tímamót og tækifæri.

Rannsóknir hafa sýnt fram á, að ef fólk fær tækifæri til að undirbúa starfslok sín af kostgæfni, eru meiri líkur á því að tímamótin auki ánægju og vellíðan komandi ára. Aðlögun og góður undirbúningur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns eru lykilforsenda að farsælum starfslokum.

Auðnast heldur utan um námskeiðið ásamt mannauðsstjóra Garðabæjar. Námskeiðið hefur mælst afar vel fyrir í gegnum árin og á meðal þess sem farið er yfir á námskeiðinu eru fjármál við starfslok, réttindi starfsfólks við eftirlaunaaldur auk þess sem boðið er upp á fræðslu um líkamlega og andlega heilsu.

Tuttugu starfsmenn og þrír makar hafa nú lokið námskeiðinu í vor, dagana 19-20 mars. 

Gaman er að geta þess að samanlagður starfsaldur þessara tuttugu starfsmanna hjá Garðabæ eru 297 ár sem er afar dýrmætt fyrir bæinn og samfélagið. 

Á seinni degi námskeiðsins fengu þau meðal annars fræðslu um fjármál við starfslok, heimsókn frá bæjarstjóra Garðabæjar og hlýddu á ljúfa tóna frá Magnúsi Þór Sigmundssyni.