Neyðarkallinn er mættur í Garðabæ
Hrafnhildur Sigurðardóttir, liðsmaður í Hjálparsveit skáta Garðabæ, mætti með neyðarkall á bæjarskrifstofu Garðabæjar. Neyðarkallinn er seldur til 3. nóvember í helstu verslunarkjörnum landsins.
Sala á neyðarkallinum hófst í gær. Hrafnhildur Sigurðardóttir, liðsmaður í Hjálparsveit skáta Garðabæ og kennari við Sjálandsskóla, kom við á bæjarskrifstofu Garðabæjar og veitti Almari Guðmundssyni neyðarkallinn sem í ár er hamfarasérfræðingur, með vísan til þeirra fjölmörgu hamfara sem björgunarsveitir Landsbjargar hafa þurft að bregðast við á undanförnum árum.
„Hjálparsveit skáta í Garðabæ er traustur hlekkur í samfélaginu okkar og við erum stolt af því að styðja vel við þeirra öfluga starf á grunni samstarfssamnings okkar á milli. Árleg kaup okkar á neyðarkallinum eru táknrænn stuðningur þar til viðbótar,“ segir Almar um leið og hann hvetur íbúa Garðabæjar til að leggja söfnuninni lið. „Ég hvet alla bæjarbúa til að taka vel á móti sölufólki og veita þeim mikilvægan stuðning með því að kaupa neyðarkall.“
Neyðarkall björgunarsveita er árlegt fjáröflunarátak. Allur hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita og slysavarnadeilda og er hann notaður til að efla og styrkja starfið. Sala á neyðarkallinum er nú í fullum gangi og verður til 3. nóvember 2024, þá munu sjálfboðaliðar standa vaktina í helstu verslunarkjörnum landsins á meðan á átakinu stendur.
Sjálfboðaliðar úr Hjálparsveit skáta Garðabæ munu standa vaktina í IKEA og Costco í dag, á föstudaginn og hluta úr laugardegi.