Norræni leshringurinn heldur göngu sinni áfram á Bókasafni Garðabæjar
Bókasafn Garðabæjar í samstarfi við Norræna félagið í Garðabæ býður upp á leshring með áherslu á bækur norrænna rithöfunda. Leshringurinn hefur aftur göngu sína 18. september.
Bókasafn Garðabæjar í samstarfi við Norræna félagið í Garðabæ býður upp á leshring með áherslu á bækur norrænna rithöfunda sem hafa komið út í íslenskri þýðingu. Í haust verður ávallt önnur spennusaga og hin fagurbókmenntir.
Útvarpskonan Jórunn Sigurðardóttir leiðir leshringinn. Jórunn hefur áratuga reynslu af umfjöllun um bókmenntir og má meðal annars nefna útvarpsþáttinn Orð um bækur sem hún stýrði á Rás 1.
Norræni leshringurinn hefur göngu sína 18. september og mun hittast þriðja fimmtudag í mánuði klukkan 19.00. Bækurnar Elsku Poona eftir Karin Fossum og Dúkkuverksmiðjan eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur eru fyrstar á dagskrá leshringsins.

Margrét Berndsen Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar, segir leshringi frábæra fyrir öll þau sem vilja víkka sjóndeildarhringinn.
„Þegar leshringurinn hittist er alltaf glatt á hjalla og afslöppuð stemmning og engin pressa á neinn. Félagar fá að hitta aðra áhugasama um bækur og heyra ólíkar skoðanir, fá nýtt sjónarhorn og lesa fjölbreyttari bækur. Leshringurinn velur stundum bækur sem leshringsfélagi hefði annars ekki tekið eftir og þannig víkkað smekk manna á hvað þeir lesa. Það hefur glatt marga að frétta af nýjum bókum og jafnvel höfundum sem hefðu annars ekki veitt athygli,“ segir Margrét.
Leshringurinn er fyrir alla áhugasama um norrænar bókmenntir. Nauðsynlegt er að skrá sig og er þátttaka ókeypis. Áhugasamir sendi tölvupóst á asbjorgbj@gardabaer.is.
Frekari upplýsingar má nálgast á bókasafninu og á vef og samfélagsmiðlum Bókasafns Garðabæjar.