5. ágú. 2016

Góður liðsauki í Ráðhúsinu í sumar

Sex sumarstarfsmenn hafa verið við störf á bæjarskrifstofunum í sumar. Öll hafa þau staðið sig sérstaklega vel og fallið vel inn í hópinn á skrifstofunum.
  • Séð yfir Garðabæ
Sex sumarstarfsmenn hafa verið við störf á bæjarskrifstofunum í sumar. Öll hafa þau staðið sig sérstaklega vel og fallið vel inn í hópinn á skrifstofunum.

Verkefni sumarfólksins hafa verið fjölbreytt og afköstin góð eins og sést á textanum hér fyrir neðan.

Mannauðsdeild

Í mannauðsdeildinni eru tveir sumarstarfsmenn, þær Arna Diljá Guðmundsdóttir og Brynja Jónbjarnardóttir. Þær hafa haft umsjón með sumarstörfum hjá bænum, þ.á.m. Vinnuskólanum auk þess sem þær hafa leyst aðra starfsmenn deildarinnar af í sumarleyfum. Þessum störfum hafa þær sinnt af stakri prýði að sögn Auðar Jóhannsdóttur, sérfræðings í launadeild. "Þær hafa tekið vel í öll verkefni sem þeim eru falin og áttu m.a. hugmyndina Víkingaklappinu skemmtilega á torginu, sem vakti mikla athygli," segir Auður. 

Þjónustverið

Guðrún Jónsdóttir og Snædís Björnsdóttir eru báðar að vinna á bæjarskrifstofunum annað sumarið í röð. Þær hafa leyst þjónustufulltrúana af og gengið í öll störf í þjónustuverinu. "Það er mikill styrkur að fá gott fólk til starfa í þjónustuverinu sem hefur verið þar áður, því þjónustufulltrúar þurfa að geta svarað spurningum um flest sem snýr að starfsemi bæjarins," segir Sunna Sigurðardóttir þjónustustjóri. Hún bætir við að þær séu báðar afskaplega góðir starfsmenn, duglegar, kurteisar, framtakssamar og drífandi svo nokkur lýsingarorð séu notuð. Snædís gekk að auki í starf fulltrúa á tæknideild hluta sumarsins og Guðrún aðstoðaði við skjalastjórnun. 

Tækni- og umhverfissvið

Arnar Páll Jóhannsson, hefur starfað á tækni- og umhverfissviði við að skanna inn teikningar og önnur skjöl. Anna María Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri sviðsins segir hann hafa verið frábæran starfsmann og gott að vinna með honum. " Það hefur verið mjög gaman að hafa hann hjá okkur í sumar og hann hefur sinnt starfinu af mikilli samviskusemi. Hann hefur mest verið í að skanna skjöl en einnig hefur hann brugðist hratt og vel við þegar þjónustuverið vantar teikningar sem ekki eru skannaðar, fundið þær til og skannað. Hann hefur einnig komið að öðrum verkefnum, m.a. fyrir skipulagsstjóra," segir Anna María. Snædís Björnsdóttir gekk að auki í starf fultrúa á tæknideild hluta sumarsins, eins og kemur fram hér að ofan.

Skjalamálin

Mikið hefur áunnist í pökkun og frágangi á skjölum í sumar og má þakka það þeim Guðrúnu Jónsdóttur og Þuríði Önnu Pálsdóttur sem hafa unnið að verkefninu undir stjórn Evu Óskar Ármannsdóttur skjalastjóra. Guðrún hóf störf í maí og byrjaði sumarið á að vinna að skjalamálum áður en hún fór í þjónustuverið. "Guðrún fékk ýmis verkefni, t.d. við að raða í skjalaskápa, skráningar, pökkun o.fl. Hún hefur líka séð um póstinn hér á bæjarskrifstofunum í sumar," segir Eva og bætir við að Guðrún sé "ofurklár og fljót að læra."

Þuríður er að klára nám í upplýsingafræði og hefur í sumar unnið að því að pakka, skrá, skanna og raða skjölum. "Þuríður hefur sýnt að hún hefur nákvæmni skjalastjórans og það er gott að vinna með henni," segir Eva.

Takk fyrir ykkar góðu störf

Samstarfsfólkið á bæjarskrifstofum Garðabæjar þakkar sumarstarfsmönnunum fyrir góð störf og skemmtilega samveru í sumar. Gangi ykkur öllum vel í því sem þið takið ykkur fyrir hendur í haust.