Blómlegt starf í leikskólum
Vísindaleikir, námssögur, dans og myndlist eru hluti af blómlegu starfi leikskólanna í Garðabæ sem kynnt er í nýrri ársskýrslu leikskólanna fyrir skólaárið 2010-2011.
Hátt í 700 leikskólabörn
Í Garðabæ eru níu leikskólar og eru fimm þeirra reknir af Garðabæ. Í leikskólum í Garðabæ voru á skólaárinu alls 672 börn. Leikskólinn Sjáland var fjölmennasti leikskólinn með 135 börn en Ásar koma þar á eftir með 120 börn. Fámennastur er leikskólinn Kjarrið þar sem 20 börn dvöldu.
Í leikskólum í Garðabæ er unnið metnaðarfullt starf þar sem áhersla er lögð á vellíðan og þroska barnanna. Á meðal þess sem unnið var skólaárið 2010-2011 er verkefnið lesmál en það felst í því að þróa markvissar sögu- og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar. Styrkur til þriggja ára fékkst í verkefnið hjá Sprotasjóði.
Vísindaleikir og námssögur í þróun
Í einstökum leikskólum var unnið að fjölmörgum skemmtilegum verkefnum á árinu auk hins daglega starfs. Kennarar á Hæðarbóli unnu t.d. að því á skólaárinu að þróa vísindaleiki með þeim búnaði sem Marel gafa leikskólanum sumarið 2010. Í þeirri vinnu var stuðst við þróunarverkefni um eðlisfræðikennslu í leikskólum.
Í leikskólunum hefur einnig verið unnið að því að þróa námssögur sem matsaðferð. Á Lundabóli telja starfsmenn námssögurnar auðvelda sér að öðlast dýpri skilning á persónulegum eiginleikum barnanna og sjá ýmsar sterkar hliðar á þeim. Þá var unnið að grænfánaverkefnum m.a. á Sunnuhvoli og á leikskólanum Sjálandi.
Ársskýrslur leikskóla Garðabæjar eru aðgengilegar á vef Garðabæjar.