8. des. 2011

Sjálandsskóli fær Mugison í verðlaun

Sjálandsskóli, Alþjóðaskólinn og leikskólinn Sjáland báru sigur úr býtum í keppninni Syngjum saman sem haldinn var á degi íslenskrar tónlistar, 1. desember sl. Verðlaunin eru einkatónleikar með tónlistarmanninum vinsæla Mugison.
  • Séð yfir Garðabæ

Sjálandsskóli, Alþjóðaskólinn og leikskólinn Sjáland báru sigur úr býtum í keppninni Syngjum saman sem haldinn var á degi íslenskrar tónlistar, 1. desember sl. Verðlaunin eru einkatónleikar með tónlistarmanninum vinsæla Mugison.

Sungu saman við útvarpið

A degi íslenskrar tónlistar sameinuðust allar útvarpsstöðvar landsins um að spila samtímis sömu þrjú íslensk lög og var fólk hvatt til að koma saman við útvarpstækin og syngja með. Efnt var til samkeppni af þessu tilefni þar sem þátttakendur voru hvattir til að senda inn myndir eða myndbönd af fólki sem söng saman.

Lögin sem voru spiluð eru Kvæðið um fuglana eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Davíðs Stefánssonar, Manstu ekki eftir mér, lag Ragnhildar Gísladóttur við texta Þórðar Árnasonar og Stingum af eftir Mugison.

Fá Mugison í heimsókn

Í Sjálandsskóla komu nemendur þriggja skóla saman til að syngja, þ.e. Sjálandsskóla, Alþjóðaskólans og leikskólans Sjálands. Börnin sungu með af innlifun og sendu myndband frá viðburðinum í keppnina með þeim frábæra árangri sem áður er greint frá. Það var til mikils að vinna fyrir nemendur og starfsfólk skólanna því verðlaunin eru hvorki meira né minna en einkatónleikar sjálfs Mugisons í skólanum.

 

Sagt er frá keppninni og vinningshöfunum á vef ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.

 

Á facebook síðu Syngjum saman, https://www.facebook.com/syngjumsaman má sjá mörg skemmtileg myndbönd og myndir sem bárust í keppnina. 

 

Myndband Sjálandsskóla á Youtube.