Jólasmiðjur í Hönnunarsafninu
Í nóvember og desember hefur Hönnunarsafn Íslands boðið upp á jólasmiðjur fyrir nemendur leik-og grunnskóla í tengslum við jólasýningu safnsins „Hvít jól“. Skólabörnin hafa búið til kramarhús, músastiga, klippt jóladúka og búið til jólaskraut af ýmsu tagi. Þau hafa sungið jólalög og jólatré safnsins hefur verið skreytt með litríku jólaskrauti.
Jólasmiðjan
Jólasmiðjan hefur farið vel af stað og nemendurnir hafa haft gaman að búa til hluti þar sem hver hlutur hefur sitt sérkenni, þar sem einfaldleikinn og smáatriðin spila saman og mynda hlut sem er fallegt að skreyta með og gaman að snerta, eiga eða gefa. Á myndunum má sjá áhugasama nemendur Hofsstaðaskóla og Flataskóla klippa út kramarhús og nemendur Leikskólans Bæjarbóls skreyta jólatré safnsins.
Sýningin ,,Hvít jól"
Í innri sal Hönnunarsafnsins á efri hæð er jólasýningin ,,Hvít jól" sýnd. Á sýningunni má sjá stóla eftir heimsþekkta hönnuði eins og Harri Koskinen, Poul Kjærholm og Peter Opsvik, uppdekkað hátíðarborð með borðbúnaði eftir þekkt fyrirtæki sem starfað hafa við framleiðslu borðbúnaðar í tugi ára, fyrirtækið Arabía, Royal Copenhagen, Stavangerflint og fleiri. Allt er þetta norræn hönnun og margir hlutir sýningarinnar kunnuglegir.
Hópar sem vilja taka þátt í jólasmiðjunni eða fá leiðsögn um sýningar safnsins geta haft samband við Árdísi Olgeirsdóttur, ardisol@gardabaer.is fyrir nánari upplýsingar og tímapantanir. Sjá einnig heimasíðu Hönnunarsafnsins, www.honnunarsafn.is.