28. nóv. 2011

Fundur um skipulag Túna

Um 50 manns mættu á íbúafund sem haldinn var í Flataskóla mánudaginn 21. nóvember síðastliðinn. Skipulagsnefnd boðaði til fundarins en þar var tillaga að deiliskipulagi Silfurtúns (Túna) kynnt
  • Séð yfir Garðabæ

Um 50 manns mættu á íbúafund sem haldinn var í Flataskóla mánudaginn 21. nóvember síðastliðinn. Skipulagsnefnd boðaði til fundarins en þar var tillaga að deiliskipulagi Silfurtúns (Túna) kynnt en hún er nú í forkynningu í samræmi við 4. mgr. 40. greinar skipulagslaga nr. 123 2010.

Stefán Snær Konráðsson formaður skipulagsnefndar gerði grein fyrir skipulagsferlinu og Baldur Ó. Svavarsson arkitekt hjá Úti og Inni ehf. kynnti tillöguna sem hann hefur unnið að á vegum skipulagsnefndar.

Margar ábendingar borist


Unnið hefur verið að skipulaginu frá áramótum og hafa margvíslegar ábendingar og athugasemdir borist á þeim tíma sem voru teknar til skoðunar við vinnslu tillögunnar. Má þar nefna að lóð garðyrkjudeildar verður felld út úr tillögunni, félagsheimili Kiwanis verður víkjandi, megingöngustígur um græna svæðið verður fluttur frá íbúðarhúsum, skilgreint verður sérstakt svæði fyrir starfsemi skáta sunnan Jötunheima o.s.frv.

Gerð var úttekt á umferðaröryggi sem skilaði sér í nokkrum atriðum sem kveðið verður á deiliskipulaginu.

Kynningu Baldurs má sjá hér.

Að lokinni kynningu skipulagsráðgjafans var orðið frjálst og spunnust líflegar umræður um skipulag hverfisins. Ýmis álitaefni voru reifuð og fundarmenn settu mál sitt fram á málefnalegan hátt.

Mest voru rædd málefni Skátaheimilisins, öryggi gangandi vegfarenda og hljóðvist meðfram Hafnarfjarðarvegi.

Að lokum minnti Stefán á að hægt er að leita til Arinbjarnar Vilhjálmssonar, skipulagsstjóra Garðabæjar ef menn vilja koma einhverjum ábendingum á framfæri áður en gengið verður endanlega frá deiliskipulagstillögu.

Tillagan er aðgengileg á vef Garðabæjar www.gardabaer.is og í þjónustuveri Garðabæjar, Garðatorgi 7 til 12. desember 2011.