25. nóv. 2011

Jóladagskrá á Garðatorgi

Laugardaginn 26. nóvember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 42. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi í miðbæjargarðinum.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 26. nóvember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 42. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Athöfnin á laugardag hefst  kl. 16 á Garðatorgi í miðbæjargarðinum. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur fyrir gesti og Katrín Káradóttir formaður Norræna félagsins í Garðabæ, býður gesti velkomna. Sendiherra Noregs á Íslandi Dag Vernø Holter afhendir tréð fyrir hönd Asker og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, veitir trénu viðtöku. Skólabörn úr Hofsstaðaskóla syngja nokkur lög fyrir viðstadda og að lokum koma jólasveinar til byggða og flytja jólalög. 

 

Barnaleikrit og markaður

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar.  Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar,  kl. 13.30 verður barnaleikritið ,,Jólarósir Snuðru og Tuðru“ sýnt.  Leiksýningin verður haldin á efri hæð safnsins að Garðatorgi 7. 

Í göngugötunni á Garðatorgi verður  jólamarkaður frá kl. 11-17.  Það er blómabúðin á Garðatorgi sem hefur umsjón með markaðnum og á hverjum föstudegi og laugardegi fram að jólum verður haldinn jólamarkaður.

Félagið Gróska sem eru samtök myndlistarmanna og áhugafólks um myndlist í Garðabæ og á Álftanesi ætlar að halda listaverkamarkað í Gróskusalnum á Garðatorgi. Einnig eru vinnustofur listamanna og verslanir opnar laugardaginn 26. nóvember á Garðatorginu.

Jólasýning Hönnunarsafnsins

Hvít jól er heitið á jólasýningu Hönnunarsafns Íslands.  Safnið er staðsett að Garðatorgi 1 og laugardaginn 26. nóvember verður ókeypis aðgangur á sýninguna í tilefni jóladagskrárinnar á torginu. Opið frá 12-17.

 

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.