29. júl. 2016

Snyrtilegur bær á stórafmælinu

Bæjarráð hvetur íbúa til að hafa lóðir sínar snyrtilegar á 40 ára afmælisári bæjarins
  • Séð yfir Garðabæ

Á 40 ára afmælisári Garðabæjar leggur bæjarstjórn áherslu á að halda bænum snyrtilegum og hvetur íbúa til að taka þátt í því átaki með því að huga vel að lóðum sínum. Tillaga þess efnis var samþykkt á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni.

Ráðgjöf og hvatning

Við afhendingu viðurkenninga fyrir snyrtilegar lóðir nú nýlega minnti Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar á markmiðið um að Garðabær verði snyrtilegasti bær landsins. Hún þakkaði viðurkenningarhöfum fyrir þeirra framlag enda náist slíkt markmið ekki nema með góðri samstöðu allra íbúa. Allur gróður hefur vaxið hratt og mikið í góða veðrinu í sumar, bæði sá gróður sem við viljum sjá vaxa og sá sem fólk vill helst halda frá görðunum sínum, svo sem fíflar og arfi. Það er því mikil vinna að halda görðum snyrtilegum og vill bæjarráð veita íbúum stuðning til þess með ráðgjöf og hvatningu.

Á vef Garðabæjar eru ítarlegar leiðbeiningar fyrir garðeigendur um umhirðu lóða og á næstunni verða frekari ráð veitt, hér á vefnum og í Garðapóstinum.

Margir vel hirtir garðar prýða bæinn

Í greinargerð með tillögu sem samþykkt var á fundi bæjarráðs segir m.a.:

"Í Garðabæ eru víða stórar lóðir og margir fallegir og vel hirtir garðar prýða bæinn. Inn á milli eru þó lóðir sem þarfnast umhirðu og geta sett blett á nærumhverfi sitt. Nú þegar Garðabær fagnar 40 ára afmæli er enn meiri ástæða en áður til að hvetja alla íbúa til að huga að garðinum og sjá til þess að hann sé snyrtilegur og stuðli að fallegri heildarmynd í götunni. Líkt og áður er sérstaklega mikilvægt að íbúar gæti að því að tré og runnar á lóðamörkum séu vel snyrt. Gróður sem vex út fyrir lóðamörk getur skapað hættu, t.d. fyrir gangandi og hjólandi fólk á gangstéttum og -stígum. Í tilefni stórafmælis bæjarins er þó rétt að hvetja garðeigendur til að huga einnig að gróðri inni á lóðum sínum."

Bæjarráð vill einnig hvetja fólk til að huga að aspartrjám sem eru víða í bænum orðin mjög hávaxin og skyggja þannig á útsýni auk þess sem þau valda skuggamyndun.