26. sep. 2011

Garðabær er draumasveitarfélagið

Garðabær er draumasveitarfélagið annað árið í röð skv. úttekt tímaritsins Vísbendingar á fjárhagslegum styrk sveitarfélaga
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær er draumasveitarfélagið annað árið í röð skv. úttekt tímaritsins Vísbendingar á fjárhagslegum styrk sveitarfélaga. Í Garðabæ er útsvarið lægst af öllum stærri sveitarfélögum landsins, afkoma af rekstri er með því sem best gerist og hlutfall skulda af tekjum er nálægt því að vera 1,0 sem er sú miðviðun sem Vísbending gefur sér.

Eina sveitarfélagið með yfir 8 í einkunn

Í úttekt Vísbendingar er sveitarfélögum gefin einkunn eftir því hvernig fjárhagsleg staða þeirra er miðað við fimm fyrirfram gefnar forsendur. Garðabær er í þetta sinn með einkunnina 8,7 og er eina sveitarfélagið sem fær yfir 8 í einkunn. Snæfellsbær er í öðru sæti með einkunnina 7.4 og Dalvíkurbyggð i því þriðja með 7.3.

Hærri ráðstöfunartekjur í Garðabæ

Það sem helst gerir Garðabæ að góðu sveitarfélagi, skv. úttekt Vísbendingar er að útsvarið er lægra en annars staðar. Tekið er dæmi af fjölskyldu með fimm milljóna króna árslaun en hún borgar 41 þúsund krónum lægra útsvar í Garðabæ en t.d. í Hafnarfirði, sem jafngildir um tvö prósent hærri ráðstöfunartekjum. Þá er afkoma Garðabæjar hófleg og skuldir sem hlutfall af tekjum nálægt 100%.

Forsendur Vísbendingar:

  1. Skattheimtan þarf að vera sem lægst.
  2. Breytingar á fjölda íbúa þurfa að vera hóflegar.
  3. Afkoma sem hlutfall af tekjum á að vera sem næst 10%.
  4. Hlutfall nettóskulda af tekjum sé sem næst 1,0.
  5. Veltufjárhlutfall sé nálægt 1.0.