12. sep. 2011

Fékk gull þriðja árið í röð

Hofsstaðaskóli hlaut gullviðurkenningu fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í Nýsköpunarkeppni grunnskóla þegar verðlaun voru veitt í lokahófi keppninnar sunnudaginn 11. september.
  • Séð yfir Garðabæ

Hofsstaðaskóli fékk gullverðlaun fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í ár, þegar verðlaun voru veitt í lokahófi keppninnar sunnudaginn 11. september sl. Þetta er þriðja árið í röð sem skólinn fær gullverðlaunin og hlaut hann því farandbikarinn til eignar. Sædís Arndal smíðakennari í Hofsstaðaskóla á veg og vanda af þátttöku nemenda skólans í keppninni.

Tveir nemendur Hofsstaðaskóla í úrslitum

Þetta er í 20. sinn sem keppnin er haldin. Lokaathöfnin fór fram í höfuðstöðvum Marel, sem hefur verið bakhjarl keppninnar frá upphafi. Alls bárust 1.872 hugmyndir í keppnina í ár frá 46 grunnskólum víða um land. Tólf nemendur hlutu viðurkenningar og verðlaun fyrir sínar hugmyndir, þar af 10 stúlkur. Í ár átti Hofsstaðaskóli þrjá nemendur í úrslitum. Kristín Hekla Örvarsdóttir hlaut gullverðlaun fyrir öryggisúr og Birgir Guðlaugsson hlaut bronsverðlaun fyrir ljósahanska.

Við lokaathöfnina afhentu forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson verndari keppninnar og Svandís Svavarsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra verðlaun og viðurkenningar til þátttakenda og grunnskóla. Þá kynntu þátttakendur sjálfir hugmyndir sínar fyrir gestum.

Tóku þátt í vinnusmiðju

Fyrir lokahófið voru 40 nemendur valdir til að taka þátt í tveggja daga vinnusmiðju, en tilgangur vinnusmiðjunnar er að gefa öllum sem valdir eru, tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar nánar og útbúa plakat, líkan eða aðra framsetningu sem lýsir hugmyndinni best. Dómnefnd velur úr hugmyndunum og fá stigahæstu keppendurnir verðlaun. Vinnusmiðjan var haldin í Háskólanum í Reykjavík, en meistaranemar og kennarar úr Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands aðstoðuðu nemendur.


Tilgangur Nýsköpunarkeppninnar er að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og hvernig megi þroska hana með vinnu við eigin hugmyndir.

Í frétt Stöðvar 2 um úrslit keppninnar, má m.a. sjá viðtal við Kristínu Heklu Örvarsdóttur, nemanda í Hofsstaðaskóla sem fékk eitt fjögurra gullverðlauna fyrir hugmynd sína.

Fleiri myndir frá athöfninni eru á vef Hofsstaðaskóla.

 

Stoltir verðlaunahafar úr Hofsstaðaskóla

Stoltir verðlaunahafar úr Hofsstaðaskóla.

Farandbikarinn góði sem nú er eign Hofsstaðaskóla

Farandbikarinn góði sem nú er eign Hofsstaðaskóla.