2. sep. 2011

Ánægja með skólamatinn

Nemendum í grunnskólum Garðabæjar hefur þessa viku staðið til boða hádegismatur frá fyrirtækinu Skólamat. Skrifað var undir samning við fyrirtækið í dag og gildir hann til þriggja ára.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendum í grunnskólum Garðabæjar hefur þessa viku staðið til boða hádegismatur frá fyrirtækinu Skólamat. Skrifað var undir samning við fyrirtækið í dag og gildir hann til þriggja ára. Börnin hafa tekið matnum vel þessa fyrstu viku og virðist almenn ánægja vera með gæði hans, að sögn Margrétar Bjarkar Svavarsdóttur, forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs.

Samráð við yfirferð tilboða

Bæjarráð ákvað að taka tilboði Skólamatar eftir útboð sem auglýst var í sumar. Til að leggja mat á tilboðin sem bárust var skipaður starfshópur sem í sátu starfsmenn skóladeildar Garðabæjar, fulltrúi skólastjórnenda og fulltrúi foreldra tilnefndur af grunnstoðum Garðabæjar. Margrét Björk segir að hópurinn hafi lagt mat á starfsemi fyrirtækjanna og farið yfir matseðla m.a. hvað varðar hollustu, heilbrigði og nýjungar. Einnig var lögð áhersla á að maturinn væri  sem mest unninn í eldhúsum skólanna sjálfra. Niðurstaða starfshópsins var að leggja til að samið yrði við Skólamat. 

Heilsueflandi skólar

Margrét Björk bætir því við að fyrirtækið Skólamatur hafi mikinn hug á að vinna að verkefnum á sviði heilsueflingar með nemendum og starfsmönnum skóla og vinni nú þegar að slíku verkefni með Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Áhugi sé á að vinna samskonar verkefni í Garðabæ.

Á vef Skólamatar koma fram eftirfarandi upplýsingar um fyrirtækið:

"Fjölskyldufyrirtækið Skólamatur ehf. matreiðir hollan, góðan og heimilislegan mat fyrir grunnskólanemendur.
Daglega eru máltíðir foreldaðar og snöggkældar til að tryggja ferskleika. Starfsmenn Skólamatar í hverjum skóla, fullelda síðan og framreiða matinn á disk nemenda, sem sjálfir velja sér meðlæti, t.d. grænmeti og ávexti af meðlætisbar.
Matseðlarnir, hráefnið og matreiðslan eru í samræmi við stranga næringar- og gæðastaðla."


Hægt er að skoða matseðil vikunnar á vef Skólamatar.

Skráning í matinn fer fram á vef Skólamatar (smellið á hnappinn Sækja um skólamat, hægra megin á síðunni).

Margrét Björk Svavarsdóttir og Axel Jónsson frá Skólamat undirrita samning um mat í grunnskólum Garðabæjar

Frá undirritun samningsins, Margrét Björk Svavarsdóttir og Axel Jónsson frá Skólamat