22. ágú. 2011

Frístundabíllinn aftur af stað

Frístundabíllinn hefur akstur í Garðabæ fimmtudaginn 1. september nk. Hlutverk hans er að keyra börn frá tómstundaheimilum grunnskóla í íþrótta- og æskulýðsstarf. Um tilraunaverkefni er að ræða en í vor var byrjað með þennan akstur í Garðabæ og tókst vel til.
  • Séð yfir Garðabæ

Frístundabíllinn hefur akstur í Garðabæ fimmtudaginn 1. september nk. Hlutverk hans er að keyra börn frá tómstundaheimilum grunnskóla í íþrótta- og æskulýðsstarf.  Um tilraunaverkefni er að ræða en í vor var byrjað með þennan akstur í Garðabæ og tókst vel til. 

Fer á hálftíma fresti

Akstursleiðin er ákaflega einföld og eingöngu stoppað á þessum stöðum: Hofsstaðaskóli (Mýrin) – Tónlistarskóli Garðabæjar, Ásgarður (anddyri) og Sjálandsskóli (við íþróttahúsið). Þessi leið verður keyrð frá kl. 14:30 til 17:00 á hverjum degi og er gert ráð fyrir einni ferð fram og til baka á hverjum 30 mín. Bíllinn fer frá Mýrinni á heila og hálfa tímanum en á korterinu frá íþróttahúsinu Sjálandi.  Sjá tímatöflu/leiðakerfi hér á heimasíðunni.

Skráning á Mínum Garðabæ

Kostnaður hvers þátttakanda er kr. 7.500 fyrir önnina, óháð því hve mikið bíllinn er nýttur á tímabilinu. Það er því hagkvæmast að vera með frá byrjun.  Skráning barna í frístundabílinn fer fram á umsóknavef á  „Mínum Garðabæ“.  Aðgangskort verða gefin út og þau síðan afhent á skrifstofum/tómstundaheimilum skólanna.  Greiðsluseðlar verða sendir að lokinni skráningu á Mínum Garðabæ.

Listi yfir börn sem eru áskrifendur að bílnum mun liggja frammi á tómstundaheimilunum svo starfsmenn geti aðstoðað börnin við að vera tilbúin á réttum tíma.  Það er á ábyrgð barnanna sjálfra að skila sér í frístundabílinn og að hafa aðgangskortin með sér til að sýna í bílnum.

 

Fyrsta vikan í september er gjaldfrjáls og þá geta öll börn nýtt sér frístundabílinn.