18. ágú. 2011

Góðar umræður á íbúafundi

Um þessar mundir stendur yfir forkynning á tillögu að deiliskipulagi Arnarness. Af því tilefni var haldinn sérstakur kynningarfundur þann 17. ágúst sl. í Flataskóla þar sem íbúar gátu kynnt sér tillöguna. Góðar umræður voru um tillöguna
  • Séð yfir Garðabæ

Um þessar mundir stendur yfir forkynning á tillögu að deiliskipulagi Arnarness sem arkitektastofan Hornsteinar hefur unnið.  Sú aðferð að halda forkynningu er nýmæli sem kveðið er á um í nýjum skipulagslögum sem tóku gildi um síðustu áramót. Með forkynningu gefst skipulagsnefnd færi á að leggja tillöguna fram og óska eftir ábendingum áður en hún verður send til kynningar með 6 vikna fresti til þess að skila inn skriflegum athugasemdum sem verður svarað með formlegum hætti.

 

Góðar umræður á íbúafundum


Þann 31.mars síðastliðinn hélt skipulags nefnd opinn fund þar sem vinna við gerð deiliskipulags var kynnt og álitamál reifuð. Um tvö hundruð manns mættu til fundarins í mars og má sjá frétt um þann fund hér.  Í kjölfar þess fundar var gengið frá tillögu sem skipulagsnefnd hefur nú vísað til forkynningar og sem liður í þeirri kynningu var boðað til sérstaks kynningarfundar sem haldinn var í Flataskóla miðvikudaginn 17. ágúst. Um 80 manns mættu á fundinn og sköpuðust líflegar umræður um tillöguna. Ýmsar gagnlegar ábendingar komu fram en í kjölfar forkynningar mun skipulagsnefnd fjalla um tillöguna og fram komnar ábendingar áður en henni verður vísað til formlegrar kynningar.

 

Forkynning á tillögu að deiliskipulagi Arnarness

Forkynning stendur til 31.ágúst og er hún aðgengileg hér á heimasíðu Garðabæjar en einnig í þjónustuveri Garðabæjar. Hægt er að  leita til skipulagshönnuða eða skipulagsstjóra til að fá nánari útskýringar á tillögunni eða einstökum þáttum hennar. Á fundinum þann 17. ágúst sl.  voru menn hvattir til þess að kynna sér tillöguna m.a. lista yfir allar lóðir í Arnarnesi þar sem fram koma stærðir, nýtingarhlutfall, núverandi og heimilað byggingarmagn.