Sundlist eða listsund ?
Þeim sem heimsótt hafa sundlaugina í Ásgarði í þessari viku hefur mögulega brugðið í brún en á bökkum sundlaugarinnar er málverk í stöðugri vinnslu. Um er að ræða skemmtilegt samstarfsverkefni Garðabæjar og listamannsins Birgis Rafns Friðrikssonar.
Verkið hófst mánudaginn 25. júlí sl. en þá stóð Birgir fyrir framan auðan flöt 150 x 300 cm og hófst handa.
Sundlaugargestum gefst kostur á að fylgjast með verkinu í þróun á næstu vikum en áætluð verklok eru undir lok ágúst.
Móðir náttúra mun þá taka við þar sem verkinu verður komið fyrir við sundlaugarbakkann þar sem það mun hanga næstu 2 árin.
Birgir mun nota hvert tækifæri sem gefst vegna veðurs til að vinna við verkið á næstu vikum og verður fróðlegt fyrir gesti sundlaugarinnar að fylgjast með þróun þess allt til loka.
Á fésbókarsíðu Birgis er hægt að skoða myndir af verkinu..