21. júl. 2016

Viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2016

Eigendur sex einbýlishúsalóða fengu afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir 2016, við athöfn í Íþróttamiðstöð GKG í gær.
  • Séð yfir Garðabæ

Eigendur sex einbýlishúsalóða fengu afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir 2016, við athöfn í Íþróttamiðstöð GKG í gær. Viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækis og stofnana fengu fyrirtækin Vistor, Distica og Veritas í Hörgatúni 2. Íþróttamiðstöð GKG (Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar) fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegt opið svæði og umhverfi. Gullakur var útnefndur snyrtilegasta gatan.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar afhentu eigendum lóðanna viðurkenningar afhentu viðurkenningarnar í nýjum golfskála GKG.

Einbýlishúsalóðirnar sem veittar voru viðurkenningar fyrir eru:

  • Ásbúð 15
  • Faxatún 32
  • Háholt 5
  • Smáraflöt 7
  • Smáraflöt 35
  • Steinás 1

Lýsingarnar sem hér fylgja eru úr umsögn umhverfisnefndar. Fleiri myndir eru á facebooksíðu Garðabæjar

Myndir frá afhendingu viðurkenninganna

Myndir af lóðunum

Lóðir íbúðarhúsnæðis

Ásbúð 15

Ásbúð 15

 

 

 

 

 

 

 

Lóðin er mjög snyrtileg, þótt það kosti auðsjáanlega mikla vinnu að halda henni þannig. Mikið og fjölbreytt úrval fjölæra blóma prýða garðinn. Lítill gosbrunnur er í horni garðsins og einnig er þar hafin ræktun ávaxtartrjáa. Dvalarsvæði eru allt umhverfis húsið og hægt að njóta sólar í garðinum frá morgni til kvölds. Lóðin er 972 m2. Byggingarár hússins er 1973.

Faxatún 32

Faxatún 32

 

 

 

 

 

  

 

Túnahverfið var með fyrstu íbúðahverfum í Garðahreppi. Húsið á lóð Faxatúns 32 var byggt árið 1963 og þar býr frumbýlingur enn. Eigendur hafa haldið garðinum fallegum og snyrtilegum alla tíð. Matjurtagarður með kartöflum er á baklóð og nú á að hefja ræktun ávaxtartrjáa til að fylgjast með tískubylgju nútímans í garðræktinni. Stærð lóðarinnar er 660 m2.

Háholt 5

Háholt 5

 

 

 

 

 

 

 

Lóðirnar í Hnoðraholti eru flestar í miklum bratta, sem garðeigendur hafa þurft að laga sig að. Þetta hefur eigendum Háholts 5 tekist vel með stöllun lóðarinnar. Gott og mikið útsýni er til vesturs, yfir bæinn og út á flóann. Fjölbreyttur trjágróður er klipptur og snyrtur, bæði stærri tré til að skyggja ekki á útsýnið og runnagróður. Byggingarárið er 1983 og stærð lóðarinnar er 887 m2.

Smáraflöt 7

Smáraflöt 7

 

 

 

 

 

 

 

Garðurinn er í góðri umhirðu og hefur auðsjáanlega verið endurnýjaður gegnum árin, en byggingarár hússins er 1967. Garðinn prýðir fjölbreyttur trjá- og runnagróður, ásamt fjölærum blómgróðri. Dvalarsvæði er á pöllum með gróðurhúsi. Á baklóð er ævintýragarður barna þar sem róla á milli aspastofna vakti athygli. Þar eru líka matjurtareitir og safnkassi fyrir garðaúrgang sem er alltaf jákvætt að sjá í görðum. Stærð lóðarinnar er 862 m2.

Smáraflöt 35

Smáraflöt 35

 

 

 

 

 

 

 

Íbúðarhúsið að Smáraflöt 35 er byggt 1966 og þar búa enn frumbýlingar. Garðurinn er snyrtilegur og hann prýðir bæði trjágróður og fjölær blóm. Skemmtileg dvalarsvæði eru á baklóð. Útskornir tréskúlptúrar skreyta garðinn og snúa andlitum mót þeim sem kíkja í garðinn utan frá. Í garðinum er matjurtagarður með jarðaberjum og safnkassi. Lóðin er 862 m2 að stærð.

Steinás 1

Steinás 1

 

 

 

 

 

  

 

Lóðin að Steinási 1 er sérstök að því leyti að þar hefur verið reynt með góðum árangri að láta klapparholtið njóta sín og hafa villtan gróður í garðinum. Unnið hefur verið með stórgrýti í fláanum á milli lóða við efri lóðamörkin og það nýtt í bekki og borð á dvalarsvæði garðsins. Íbúðarhúsið er byggt árið 2000, lóðin er 771 m2 að stærð.

Lóð fyrirtækja:

Hörgatún 2

Hörgatún 2

 

 

 

 

 

  

 

Fyrirtækin Vistor, Distica og Veritas eru á lóð Hörgatúns 2. Þessari lóð hefur verið haldið snyrtilegri alla tíð með miklum trjágróðri umhverfis. Lóðin hefur fjórum sinnum fengið viðurkenningar fyrir smekklega og vel hirta lóð fyrirtækis, fyrst árið 1988. Það ár voru fyrst veittar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi. Stærð lóðarinnar er 16.913 m2

Viðurkenning fyrir snyrtilegt opið svæði:

Íþróttamiðstöð GKG og golfvöllurinn

Golfvöllur GKG

 

 

 

 

 

 

 

Nýi golfskálinn er sérstaklega vel hannaður og fellur vel að umhverfi sínu. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar var stofnaður árið 1994 á Vífilsstaðavelli. Allt frá þeim tíma hafa félagsmenn og starfsmenn vallarins unnið ötullega að því að byggja upp golfvöll með tjörnum og trjágróðri á svæði sem áður hét Vetrarmýri. Nýr og glæsilegur golfskáli fullkomnar myndina.

Snyrtilegasta gatan er:

Gullakur

Gullakur

 

 

 

 

 

 

 

Gullakur er í Akrahverfi við Arnarneslæk. Garðarnir og götumyndin er sérstaklega snyrtileg og stílhrein. Íbúarnir eru auðsjáanlega samstilltir við að halda nærumhverfi sínu snyrtilegu. Byggingartími við Gullakur er á tímabilinu 2007 – 2011.