20. jún. 2011

Bæjarlistamaður Garðabæjar

Ómar Guðjónsson tónlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2011. Gunnar Einarsson bæjarstjóri tilkynnti um hver væri bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2011 við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju þann 17. júní sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Ómar Guðjónsson tónlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2011. Gunnar Einarsson bæjarstjóri tilkynnti um hver væri bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2011 við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju þann 17. júní sl.

 

Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem fyrir valinu verður hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. 

Ómar Guðjónsson

Ómar er fæddur árið 1978 og byrjaði að nema á píano um átta ára aldur en 12 ára átti gítarinn hug hans allan.  Þegar Ómar var 14 ára gamall komst hann inn í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan árið 2003.  Meðal kennara hans voru Hilmar Jensson,  Jón Páll Bjarnason og Sigurður Flosason. Ómar var meðlimur í kvartettnum Off minor sem spilaði í Norðurlandajazzkeppni ungliða í Helsinki árið 2002 á vegum "Young Nordic Jazz Comets" og leiddi síðan HOD, eigin sveit 2003 í Osló í þessari sömu keppni.


Ómar er búinn að starfa sem atvinnutónlistarmaður sl. 12 ár.  Á því tímabili er hann búinn að leika með mörgum af fremstu tónlistarmönnum og hljómsveitum landsins.  Af hljómsveitum sem hann er fastur meðlimur í má nefna Jagúar, ADHD, Latinsveit Tómasar R. Einarssonar og Sjs big band. Fyrsti sólóhljómdiskur Ómars heitir Varma Land og kom út árið 2003 og fékk þá tvær tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna.  Einnig gerðu þau systkini Ómar, Óskar og Ingibjörg geislaplötu árið 2007 sem nefnist ÓÓ Ingibjörg. 


Ómar hefur tvisvar fengið íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu plötu ársins í jazzflokki árið 2009 fékk hann verðlaunin fyrir verkið  „Fram af“ / Ómar Guðjónsson tríó (verk frá árinu 2008) og árið 2010 fyrir verkið ADHD með samnefndri hljómsveit (verk frá árinu 2009).  Á þessu ári fékk Ómar tilnefningu sem ,,besti flytjandinn“ fyrir öflugt tónleikahald á árinu 2010 bæði með eigin hljómsveitum og fjölmörgum öðrum listamönnum.


Einnig hefur Ómar samið verk fyrir sjónvarp, útvarp og leikhús auk þess sem hann hefur verið öflugur í tónleikahaldi með fjölda hljómsveita víðs vegar um land og erlendis.  Ómar hefur oft spilað við hátíðleg tækifæri í Garðabæ núna síðast í vor á Jazzhátíð Garðabæjar.   Ungir Garðbæingar njóta einnig góðs af því að geta lært á gítar hjá Ómari þar sem hann kennir við Tónlistarskóla Garðabæjar.