15. jún. 2011

Útikaffihús við Arnarnesvoginn

Útikaffihús verður starfrækt við Arnarnesvoginn næstu tvær helgar en þá verður sett þar upp tjald og aðstaða til að sitja úti. Veitingastaðurinn Himinn og haf stendur fyrir útikaffihúsinu en aðstandendur hans
  • Séð yfir Garðabæ

Útikaffihús verður starfrækt við Arnarnesvoginn næstu tvær helgar en þá verður sett þar upp tjald og aðstaða til að sitja úti. Veitingastaðurinn Himinn og haf stendur fyrir útikaffihúsinu en aðstandendur hans hafa fengið lóðinni við voginn úthlutað undir veitingastað.

 

Lóðin var auglýst til úthlutunar í janúar á þessu ári og bárust tvær umsóknir. Bæjarráð samþykkti í mars að úthluta lóðinni til veitingastaðarins Himins og hafs og var skrifað undir samning um úthlutunina í dag 15. júní. 

 

Aðstandendur Himins og hafs vinna nú að fjármögnun verkefnisins. Nexus arkitektar hafa þegar gert tillögu að 300 m2 veitingahúsi á lóðinni og vinna nú að áframhaldandi hönnun, þar sem meðal annars verður gert ráð fyrir veislusal til útleigu.

 

Áformað er að framkvæmdir hefjist síðar á þessu ári og að byggingin verði risin árið 2012.

 

Fyrsta verkefni Himins og hafs er að starfrækja útikaffihúsið sem verður opið fimmtudag til sunnudags næstu tvær helgar. Nánari upplýsingar um opnunartíma er að finna á facebook síðu kaffihússins.

 

Veitingahúslóðin er 1350 m2 að stærð. Þegar lóðin var auglýst var tekið fram að gerðar væru kröfur um vandaða hönnun byggingar og lóðar. Taka skuli tillit til ríkjandi hafgolu á sólríkum sumardögum en jafnframt gera ráð fyrir dvalarsvæði utanhúss þar sem sólar nýtur, ekki síst kvöldsólar. Gert er ráð fyrir að bílastæði Sjálandsskóla nýtist fyrir starfsemina.

Himinn og haf á facebook