20. maí 2011

Jazzhátíðin byrjuð

Jazzhátíð Garðabæjar hófst með frábærri gítarveislu fimmtudagskvöldið 19. maí í hátíðarsal FG. Á opnunartónleikunum komu fram þeir Ómar Guðjónsson og Hilmar Jensson og spiluðu nokkur lög saman og að því loknu steig Tríó Björns Thoroddsens á svið. Næstu kvöld heldur jazzhátíðin áfram í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli. Tónleikarnir hefjast öll kvöldin kl. 20.30.
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar hófst með frábærri gítarveislu fimmtudagskvöldið 19. maí í hátíðarsal FG. Á opnunartónleikunum komu fram þeir Ómar Guðjónsson og Hilmar Jensson og spiluðu nokkur lög saman og að því loknu steig Tríó Björns Thoroddsens á svið.  Tríóið er skipað þeim Birni Thoroddsen, Jóni Rafnssyni og Jóhanni Hjörleifssyni.  Aðalgestur kvöldsins var japanski gítarleikarinn Kazumi Watanabe.


Tríó Björns Thorodssen og Kazumi Watanabe

Tónleikarnir voru vel sóttir og gestir kunnu vel að meta dagskrá kvöldsins.  Jazzhátíðin er nú haldin í sjötta sinn á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar. Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ. Aðgangur er ókeypis á alla tónleika hátíðarinnar og Garðbæingar sem og aðrir tónlistarunnendur eru hvattir til að sækja hátíðina heim.

 

Spennandi dagskrá framundan

Næstu kvöld heldur jazzhátíðin áfram í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli.  Tónleikarnir hefjast öll kvöldin kl. 20.30.  Föstudagskvöldið 20. maí stíga á svið ungir og efnilegir Garðbæingar í hljómsveitinni Mafía ríkisins og því næst tekur við ASA tríó með Agnari Má Magnússyni bæjarlistamanni Garðabæjar innanborðs.  Á laugardagskvöldinu 21. maí stígur á svið danskur jazzpíanisti Nikolaj Bentzon ásamt íslenskum meðleikurum.  Á sunnudagskvöldinu 22. maí lýkur hátíðinni með tónleikum Önnu Maríu Björnsdóttur og hljómsveitar.  Dagskráin er aðgengileg hér á heimasíðu Garðabæjar og líka á Facebook-síðu Garðabæjar.