20. maí 2011

Góður afrakstur í vorhreinsun

Garðbæingar tóku vel til hendinni við vorhreinsun lóða í ár. Helmingi meira magn af greinum en í fyrra var hirt upp og farið með til kurlunar.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðbæingar tóku vel til hendinni við vorhreinsun lóða í ár. Víða mátti sjá fólk að störfum úti við og starfsfólk þjónustumiðstöðvar hafði í nógu að snúast við að taka upp garðúrgang og flytja.

 

Sigurður Hafliðason, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar segir að farið hafi verið með 80 vörubílsfarma af greinum á jarðgerðarsvæði á Álftanesi. Það gerir um eitt þúsund rúmmetra af efni. Þetta er helmingi meira magn en hirt var upp í fyrra og segir Sigurður að langstærstur hluti sé aspargreinar og -afurðir. Þetta efni verður allt kurlað og endurnýtt í moltu eða sem yfirlag á beðum.

 

Einnig voru hirtir upp 400 rúmmetrar af annars konar garðúrgangi sem ekki er hægt að endurnýta.

 

Við átakið unnu, auk starfsmanna þjónustumiðstöðvar, nokkrir starfsmenn úr garðyrkjudeild bæjaríns og einnig nokkrir verðandi flokksstjórar í sumarvinnunni sem fengu þjálfun fyrir sumarið í leiðinni.