19. maí 2011

Fornminjar á Urriðaholti

Við fornleifauppgröft í landi Urriðakots á Urriðaholti á síðasta ári komu í ljós mun eldri minjar en áður var talið að þar myndu finnast
  • Séð yfir Garðabæ

Við fornleifauppgröft í landi Urriðakots á Urriðaholti á undanförnum árum hafa komið í ljós mun eldri minjar en áður var talið að þar myndu finnast. Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur stýrir uppgreftinum og skýrði hún frá niðurstöðum sínum í erindi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem staðsett er í Urriðaholti, í gær.

Minjar frá tveim tímabilum

Ragnheiður greindi frá því að Urriðakots sé ekki getið í heimildum fyrr en 1563 en að þar hafi verið búið allt fram á 20. öld. Þar eru varðveisluskilyrði slæm og því sagðist Ragnheiður hafa átt von á því að á svæðinu fyndust aðeins minjar frá 19. öld.

Annað kom þó í ljós því að við uppgröftinn fundust minjar frá tveimur tímabilum. Annars vegar eru minjar frá landnámi og fram á 12. öld og sagði Ragnheiður margt benda til að þær séu frá fyrstu tíð landnámsins.  Hins vegar fundust minjar frá miðöldum, eða 13.-14. öld.

Landnámsminjarnar sýna leyfar af skála, fjósi, geymslu, búr og soðholu. Þess má geta að soðholur hafa aðeins fundist á þrem öðrum stöðum á landinu, þar á meðal á Hofsstöðum í Garðabæ.

Frá miðöldum hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma.  

Snældusnúður með rúnaletri

Nokkrir merkilegir gripir fundist á svæðinu. Þar má nefna tvo snældusnúða, annar skreyttan og hinn með áletruðum rúnum sem er óvenjulegur fundur enda hafa fáir gripir með rúnaristum fundist hér á landi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur. 

Seljabúskapur eða föst búseta?

Ragnheiður sagði margt benda til þess að í Urriðakoti hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Það yrði þó að rannsaka mun nánar enda hefði ekkert sel verið að fullu rannsakað á Íslandi.

Hægt er að hlusta á upptöku af fyrirlestri Ragnheiðar á vef Náttúrufræðistofnunar (sjá tengil undir myndunum á síðunni).

 

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur segir frá niðurstöðum fornleifauppgraftar á Urriðaholti

Að erindinu loknu gekk Ragnheiður með viðstöddum um minjasvæðið.