13. maí 2011

Viðurkenningar fyrir hreinsunarátak

Flataskóli, foreldrafélag Barnaskólans og húsfélögin Strandvegi 9-23 fengu viðurkenningar fyrir lofsvert framtak í hreinsunarátakinu vorið 2011. Viðurkenningarnar voru afhentar á lokahátíð hreinsunarátaksins á Garðatorgi í gær.
  • Séð yfir Garðabæ

Flataskóli, foreldrafélag Barnaskólans og húsfélögin Strandvegi 9-23 fengu viðurkenningar fyrir lofsvert framtak í hreinsunarátakinu vorið 2011. Viðurkenningarnar voru afhentar á lokahátíð hreinsunarátaksins á Garðatorgi í gær.

Þetta er í þriðja sinn sem veittar eru viðurkenningar til hópa fyrir lofsvert framtak til hreinsunar bæjarins í hreinsunarátakinu að vori.
Í hreinsunarátakinu taka hópar sig saman um að hreinsa tiltekin svæði og geta fengið fyrir það styrk, t.d. til að halda grillveislu að hreinsun lokinni.

Í ávarpi sínu við afhendingu viðurkenninganna sagðist Gunnar Einarsson bæjarstjóri m.a. vilja nýta tækifærið og koma á framfæri þökkum til allra sem hafa lagt sitt af mörkum í hreinsunarátakinu bæði í ár og undanfarin ár.

Í ár voru það alls 15 hópar sem tilkynntu um þátttöku og tóku að sér svæði í sínu nærumhverfi.

Hóparnir sem fengu sérstaka viðurkenningu eru:

Flataskóli

Þar tóku sig saman nemendur og kennarar 3. og 6. bekkja og hreinsuðu rusl úr læknum frá Hafnarfjarðarvegi upp að Reykjanesbraut. Þeir hreinsuðu einnig umhverfi lækjarins, þ.e. opna svæðið upp að lóðum út og að hrauninu. Þess má geta að lækurinn heitir Hraunsholtslækur þar sem hann rennur í Hraunsholtslandi en fær nafnið Vífilsstaðalækur þegar nær dregur Reykjanesbraut.

Foreldrafélag Barnaskóla Hjallastefnunnar

Foreldrar og nemendur í Barnaskólanum tóku sig saman og hreinsuðu ekki aðeins umhverfi skólans síns heldur einnig allt umhverfi Vífilsstaða alveg niður að læk.

Húsfélög við strandlengjuna Strandvegi 9-23

Íbúar í þessum húsum hafa frá upphafi tekið þátt í hreinsunarátakinu á vorin, en það var í fyrsta sinn árið 2007. Íbúar við Strandveg 9-24 hafa hreinsað nærumhverfi sitt af mikilli alúð, þ.e. götuna sína, gróðurbeðin við götuna og fjöruna fyrir neðan húsin.

Frá lokahátíð hreinsunarátaks 2011

Umhverfisnefnd Garðabæjar bakaði vöfflur handa viðstöddum og þeim sem leið áttu um torgið í tilefni dagsins.