14. apr. 2011

Garðbæingar orðnir 11 þúsund

Garðbæingar náðu tölunni 11 þúsund 24. mars sl. þegar lítil stúlka sem búsett er í Sjálandshverfi kom í heiminn. Stúlkan, sem hefur ekki hlotið nafn ennþá, er dóttir þeirra Guðrúnar Gyðu Franklín og Gunnars Logasonar.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðbæingar náðu tölunni 11 þúsund 24. mars sl. þegar lítil stúlka sem búsett er í Sjálandshverfi kom í heiminn. Stúlkan, sem hefur ekki hlotið nafn ennþá, er dóttir þeirra Guðrúnar Gyðu Franklín og Gunnars Logasonar.

 

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar fögnuðu þessum áfanga með því að heimsækja nýja Garðbæinginn og foreldrana í dag og færa þeim góðar gjafir.

 

Fyrirtækið 66°norður sem er með höfuðstöðvar sínar í Garðabæ gaf barninu ungabarnagallann Kríu sem kom í ljós að var einmitt það sem vantaði. Snyrtistofan á Garðatorgi gaf móðurinni gjafabréf í dekur sem var einnig vel þegið. Þá færði bæjarstjórinn fjölskyldunni veglega ostakörfu.

 

Fjölskylda ellefu þúsundasta Garðbæingsins er nýlega flutt í Sjálandshverfið og kann afar vel við sig þar. Litla stúlkan er svo heppin að eiga tvo eldri bræður svo það er líf og fjör í kringum hana. Þegar gestina bar að garði voru bræðurnir í skólanum og leikskólanum.

 

Þess má geta að fyrir rúmum þremur árum, í febrúar 2008, var því fagnað að Garðbæingar höfðu náð tölunni 10 þúsund. Garðbæingur nr. 10 þúsund var líka lítil stúlka sem bjó í Akrahverfi.