29. mar. 2011

Stóra upplestrarkeppnin 2011

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2011 fór fram í sal Tónlistarskóla Garðabæjar fimmtudaginn 24. mars sl. Í ár komu allir sigurvegararnir þrír úr Garðabæ en það eru nemendur úr Garðabæ og af Seltjarnarnesi sem keppa á lokahátíðinni.
  • Séð yfir Garðabæ

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2011 fór fram í sal Tónlistarskóla Garðabæjar fimmtudaginn 24. mars sl. Í ár komu allir sigurvegararnir þrír úr Garðabæ en það eru nemendur úr Garðabæ og af Seltjarnarnesi sem keppa á lokahátíðinni.


Þetta er í fjórtánda sinn sem nemendur 7. bekkja í grunnskólum Garðabæjar taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Hún er haldin um allt land í marsmánuði og taka nær allir grunnskólar þátt. Í ár voru lesnar svipmyndir úr skáldsögunni Bærinn á ströndinni eftir Gunnar M. Magnúss sem var rithöfundur keppninnar og ljóð eftir Huldu en það var skáldanafn Unnar Benediktsdóttur Bjarklind sem var ljóðskáld keppninnar.
Ellefu nemendur tóku þátt í lokahátíðinni hér í Garðabæ að þessu sinni. Þeir unnu sér þátttökurétt með því að etja kappi við skólasystkini sín í 7. bekkjum í grunnskólum sínum í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Þátttakendur stóðu sig afar vel svo það var vandi að velja þá hæfustu úr hópnum. En dómnefndin undir stjórn Hönnu Óladóttur frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn leysti það vandasama verkefni með mikilli prýði.

Sigurvegarar voru eftirtaldir nemendur sem þetta árið komu allir úr Garðabæ:

Í fyrsta sæti var Ólafur Hákon Sigurðarson, Flataskóla
Í öðru sæti var Davíð Bjarni Björnsson, Hofsstaðaskóla
Í þriðja sæti var Stefanía Gunnarsdóttir, Flataskóla.

 

Áður en lokahátíðin hófst léku forskólanemendur fyrir þátttakendur og gesti á blokkflautur. Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður skólanefndar flutti ávarp í upphafi . Tveir eldri nemendur og fyrri sigurvegarar sem nú eru í Garðaskóla, þau Sóley Ásgeirsdóttir í 9.bekk og Halldór Kári Sigurðsson í 10. bekk, kynntu rithöfund og ljóðskáld keppninnar. Í lokin afhenti Gunnar Einarsson, bæjarstjóri öllum lesurum viðurkenningu fyrir þátttökuna í lokahátíðinni. Viðurkenningin var bók sem var sérprentun úr ljóðum Huldu og var gjöf Félags íslenskra bókaútgefenda.