23. mar. 2011

Fengu styrk úr þróunarsjóði

Fimm starfsmenn Hofsstaðaskóla hlutu nýverið styrk úr Þróunarsjóði námsgagna fyrir tvö ólík verkefni.
  • Séð yfir Garðabæ

Fimm starfsmenn Hofsstaðaskóla hlutu nýverið styrk úr Þróunarsjóði námsgagna fyrir tvö ólík verkefni. Starfsmennirnir eru þær Anna Magnea Harðardóttir, Elva Björk Ágústsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Margrét Einarsdóttir og Ragnhildur Sigurðardóttir.

Gagnvirkt íslenskuverkefni

Annars vegar er um að ræða gagnvirk íslenskuverkefni þar sem áhersla er lögð á að auka málvitund, orðaforða, stafsetningu og leikni í að beita málfræðiþekkingu ásamt lesskilningi. Efnið er fyrir nemendur í 1.-7. bekk, en það hentar einnig nemendum sem hafa íslensku sem annað tungumál.

Aukin félagsfærni

Markmiðið með hinu verkefninu er að vinna með félagsfærni hjá nemendum í 1.-7. bekk. Námsgögnin henta til að hjálpa nemendum sem eru með slaka sjálfsmynd, eiga í örðugleikum með félagsleg samskipti og þá sem eiga erfitt með að skipuleggja umhverfi sitt.

Stuðlar að nýsköpun og þróun

Hlutverk þróunarsjóðs námsgagna er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Markmið sjóðsins er að að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.