16. mar. 2011

Skólaþing Garðaskóla

Nemendur Garðaskóla eru almennt ánægðir með skólann sinn. Þeim líkar vel við ferðakerfið og fjölbreytnina sem skólinn býður upp á en leggja til ýmsar úrbætur á húsnæði og aðbúnaði.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur Garðaskóla eru almennt ánægðir með skólann sinn. Þeim líkar vel við ferðakerfið og fjölbreytnina sem skólinn býður upp á en leggja til ýmsar úrbætur á húsnæði og aðbúnaði.

Þetta eru helstu niðurstöður skólaþings Garðaskóla sem haldið var föstudaginn 11. mars sl. Þingið sátu nemendur og starfsfólk skólans auk  fulltrúa foreldra.

Helstu niðurstöður skólaþingsins eru að nemendur Garðaskóla:

• eru almennt mjög ánægðir með skólann. Þeir kunna vel að meta ferðakerfið, fjölbreytt val námsgreina, þjónustu námsversins og það frelsi og svigrúm sem þeir fá í skólanum.
• hafa áhyggjur af mötuneyti skólans, þar skorti á hollustu og fjölbreytni.
• leggja til ýmsar úrbætur á húsnæði og aðbúnaði. Þeir benda á að endurnýja þurfi húsgögn og tækjakost, lagfæra þurfi hitakerfi hússins, auka þurfi þrif.
• leggja áherslu á fjölbreytta kennsluhætti, t.d. útikennslu.

Þessu til viðbótar kynntu þeir ýmsar athyglisverðar hugmyndir, svo sem að taka upp ferðakerfið í íþróttum, ferðakerfi í 8. bekk og að breyta gryfjunni í sundlaug.

Niðurstöður skólaþingsins fara nú til frekari úrvinnslu hjá starfsmönnum skólans, nemendum, foreldrum og fræðslusviði Garðabæjar.

 

Á vef Garðaskóla er sagt nánar frá þinginu og þar eru fjölmargar myndir frá því.