25. feb. 2011

Trjágróður á lóðamörkum

Garðeigendur hafa tekið vel tilmælum um að halda trjágróðri í skefjum við lóðamörk. Fyrir það framtak ber sérstaklega að þakka
  • Séð yfir Garðabæ

Garðyrkjudeild Garðabæjar gerir árlega könnun á trjágróðri á lóðamörkum. Í framhaldi er þeim garðeigendum sem þurfa að snyrta gróður við lóðamörk send bréf með ábendingum um það sem laga þarf. Árið 2009 fengu 170 garðeigendur slík bréf, árið eftir voru þeir 61 og í ár verða aðeins send út 48 bréf til garðeigenda.

Þakkir fyrir góð viðbrögð

Það er því ljóst að garðeigendur hafa tekið vel tilmælum um að halda trjágróðri í skefjum við lóðamörk. Garðyrkjustjóri bæjarins vill þakka sérstaklega fyrir þessi góðu viðbrögð enda er stór meirihluti garða í bænum fallegur og vel hirtur.

Getur valdið slysum og tjóni


Þar er ekki einungis að bærinn verði snyrtilegri með vel snyrtum trjágróðri, heldur geta trjágreinar sem slúta út yfir gagnstéttar og stíga, valdið slysum á gangandi og ekki síst hjólandi vegfarendum. Trjágróðurinn getur einnig komið í veg fyrir að tæki að komist eftir stígunum til að sinna snjómokstri, því greinar trjáa eru harðar að vetri og geta rispað illa tækin illa.

Hjá Garðyrkjudeild bæjarins hófust trjáklippingar í janúar og verður unnið að þeim fram til vors, samhliða öðrum verkefnum. Umfang trjáklippinga er töluvert hjá bænum, enda magn trjáreita samanlagt yfir 56 þúsund fermetrar. Ábendingar bæjarbúa eru vel þegnar ef ekki er staðið vel að verki við trjáklippingar á opnum svæðum og á stofnanalóðum.

Leiðbeiningar til garðeigenda

Gagnlegar leiðbeiningar fyrir garðeigendur eru hér á vef bæjarins. Þar eru m.a. leiðbeiningar um klippingu lauftrjáa, limgerðisklippingar, klippingar garðrósa, trjáfellingar o.fl. Áhugasömum er bent á að nýta þér þennan fróðleik eða fá sér fagfólk til að annast verkið.

 

Trjágróður á lóðamörkum