8. júl. 2016

Fjölmenni heimsótti burstabæinn Krók

Bærinn Krókur á Garðaholti er opinn alla sunnudaga í sumar út ágúst mánuð. Sl. sunnudag fengu gestir tækifæri til að hitta Elínu Vilmundardóttur sem ólst upp á bænum og sagði frá lífinu þar
  • Séð yfir Garðabæ

Bærinn Krókur á Garðaholti er opinn alla sunnudaga í sumar út ágúst mánuð.  Sunnudaginn 3. júlí sl. fengu gestir safnsins í Króki tækifæri til að hitta Elínu Vilmundardóttur sem ólst upp á bænum og sagði skemmtilega frá lífinu í bænum. Boðið var upp á kaffi og lummur. Fjölmargir lögðu leið sína í Krók þennan sunnudag en hátt í 150 manns mættu á svæðið.  Við þetta tilefni afhenti Elín Vilmundardóttir safninu í Króki orf og ljá föður síns, ásamt fellingapípu sem notuð var til að fella net í sjóinn. Munirnir verða varðveittir í hlöðunni í Króki.  

Opið alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17

Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923 og er nú varðveittur með upprunalegu innbúi síðustu ábúenda, hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg bjó í Króki allt til 1985 en eftir að hún lést gaf fjölskyldan Garðabæ bæjarhúsin ásamt innbúi þannig að hægt væri að varðveita Krók.  Systurnar Elín og Vilborg Vilmundardætur höfðu yfirumsjón með hvernig húsgögnum og munum var raðað þannig að það væri eins og tíð móður þeirra, enda verður sú tilfinning sterk þegar gengið er um bæinn að gamla konan hafi bara rétt skroppið af bæ. Krókur er gott dæmi um alþýðuheimili frá fyrri hluta 20. aldar og má þar sjá ýmislegt forvitnilegt sem sumir muna eftir frá fyrri tíð.

Tilvalið er að fara í göngutúr um Garðaholtið og koma við í Króki í leiðinni einnig er hægt að leggja bílum við samkomuhúsið á Garðaholti (Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu) við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar. 

Á meðfylgjandi mynd með frétt má sjá gesti á opna húsinu sl. sunnudag. Elín Vilmundardóttir er önnur frá hægri á myndinni.