17. feb. 2011

Arnarneslækur í fóstur

Miðvikudaginn 16. febrúar sl. var undirritaður samstarssamningur á milli Garðabæjar, Hofsstaðaskóla og Fjölbrautaskólans í Garðabæ um að skólarnir taki Arnarneslækinn í fóstur. Í samningnum er kveðið á um að nemendur skólanna tíni rusl reglubundið meðfram lækjarbökkum og veiði rusl úr læknum.
  • Séð yfir Garðabæ

Miðvikudaginn 16. febrúar sl. var undirritaður samstarssamningur á milli Garðabæjar,  Hofsstaðaskóla og Fjölbrautaskólans í Garðabæ um að skólarnir taki Arnarneslækinn í fóstur.  Samningurinn gildir til tveggja ára og verður endurskoðaður að því loknu. Í samningnum er kveðið á um að nemendur skólanna tíni rusl reglubundið meðfram lækjarbökkum og veiði rusl úr læknum.  Einnig fá nemendur að gera tillögur um viðhald og endurbætur á læknum og nánasta umhverfi hans.  

 

Nemendur í FG munu afla reglulega gagna um lífríki í og við lækinn og skila árlega skýrslu um ástandið til umhverfisnefndar Garðabæjar.  Nemendur í Hofsstaðaskóla fá það verkefni að skoða fuglalíf við lækinn, skrá niðurstöður og taka myndir.  Skólarnir munu sjá um kynningu meðal íbúa á lífríki lækjarins, uppsprettu, verkefnum til að halda læknum hreinum og leiðum til mengunarvarna. Garðabær ætlar að sjá um uppsetningu á skilti sem útskýrir verkefnið og leggur til bekki meðfram læknum í samráði við skólanna.

 

Á myndinni má sjá Hafdísi Báru Kristmundsdóttur f.h. Hofsstaðaskóla, Gunnar Einarsson bæjarstjóra og Kristinn Þorsteinsson f.h. FG.  Í aftari röð eru fulltrúar nemenda frá Hofsstaðaskóla og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.