10. feb. 2011

Safnanótt í Garðabæ

Föstudagskvöldið 11. febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19-24. Í Garðabæ verður dagskrá í Hönnunarsafni Íslands og í Bókasafni Garðaæjar á föstudagskvöldinu en einnig verður dagskrá í boði um helgina í tilefni Safnanætur.
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudagskvöldið 11. febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19-24.  Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og annað árið í röð taka söfn í Garðabæ þátt ásamt fjölmörgum söfnum af öllu höfuðborgarsvæðinu. Yfir 30 söfn verða með opið hús og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem gestir á öllum aldri fá notið fram til miðnættis.  Dagskrá Safnanætur heldur einnig áfram á laugardeginum 12. febrúar og þá verður einnig boðið upp á dagskrá í Garðabæ.


Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands.  Einnig verður opið hús í bænum Króki á Garðaholti á laugardeginum og minjagarðurinn að Hofsstöðum er opinn allan sólarhringinn.

 

Sjá dagskrána í Garðabæ hér í dagbókinni á heimasíðunni.

 

Dagskrá föstudaginn 11. febrúar

Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg verður formleg opnun á sýningu á húsgögnum eftir Gunnar Magnússon húsgagnahönnuð.  Gunnar Magnússon  er einn úr hópi frumkvöðla í íslenskum húsgagna- og innanhússarkitektúr.  Sýningin opnar kl. 20 á föstudagskvöldinu og kl. 22.30 verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna í fylgd sýningarstjóra dr. Ásdísi Ólafsdóttur.  Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.  

 

 
Bókasafn Garðabæjar verður með opið frá kl. 19-24 á föstudagskvöldinu og heitt verður á könnunni fyrir gesti og gangandi.   Dagskrá í safninu hefst kl. 20.30 og þá ætlar Steinar J. Lúðvíksson blaðamaður og rithöfundur að flytja stuttan fyrirlestur um Vífilsstaði í tilefni af 100 ára afmælis Vífilsstaða á sl. ári.  Um klukkustund síðar eða kl. 21.30 verður boðið upp á tónlistaratriði með Sigríði Thorlacius söngkonu  úr hljómsveitinni Hjaltalín og Guðmundi Óskari Guðmundssyni á gítar.  Þau flytja nokkur lög Jóns Múla og endurtaka flutninginn rétt fyrir kl. 23 um kvöldið.  


Sigríður Thorlacius úr hljómsveitinni Hjaltalín flytur nokkur lög í Bókasafni Garðabæjar.

Dagskrá laugardaginn 12. febrúar


Í Bókasafni Garðabæjar verður boðið upp á leiklestur fyrir börn frá kl. 11.30 (endurtekið 12.30 og 13.30).   Anna Brynja Baldursdóttir les,  bæði börn og fullorðnir velkomin.  Í tilefni Safnanætur verður opið hús í bænum Króki á Garðaholti laugardaginn 12. febrúar frá kl. 13-16.  Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti.  Minjagarðurinn að Hofsstöðum við Kirkjulund er opinn allan sólarhringinn.  Í garðinum eru minjar af landnámsskála frá 9. öld og fjölbreytt og skemmtileg margmiðlunarsýning sem er aðgengileg á snertiskjám.

Allir eru velkomnir í söfnin á Safnanótt!