21. jan. 2011

Stækkun Bókasafns Garðabæjar

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir við stækkun og breytingar á húsnæði Bókasafns Garðabæjar. Nú er þeim lokið og safnið var opnað formlega eftir breytingarnar fimmtudaginn 20. janúar sl. Skrifstofur og lesstofa ásamt handbókasafni hafa verið fluttar upp á aðra hæð
  • Séð yfir Garðabæ

Undanfarna mánuði  hafa staðið yfir framkvæmdir við stækkun og breytingar á húsnæði Bókasafns Garðabæjar.  Nú er þeim lokið og safnið var opnað formlega eftir breytingarnar fimmtudaginn 20. janúar sl.  Við það tækifæri flutti Áslaug Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar stutt ávarp þar sem hún ræddi m.a. um mikilvægt hlutverk safnsins við að fræða börn og ungmenni um lestur.  Oddný H. Björgvinsdóttir forstöðumaður bókasafnins sagði stutt frá starfssemi safnsins og lýsti yfir ánægju sinni með að geta nú boðið upp á betri aðstöðu í safninu fyrir bæði gesti og starfsmenn.


Skrifstofur og lesstofa ásamt handbókasafni hafa verið fluttar upp á aðra hæð þar sem áður var félagsmiðstöð aldraðra, Garðaberg.  Eftir sem áður er gengið inn í safnið frá innitorginu, en lyftu og stiga hefur verið komið fyrir milli hæða. Nú getur safnið boðið upp á mjög góða aðstöðu til lestrar og námsvinnu. Barnadeild hefur verið stækkuð og miklar tilfæringar á hillubúnaði og bókakosti hafa átt sér stað á neðri hæð. Þar hefur stórum hluta alls bókakosts safnsins verið endurraðað í hillur og er nú miklu rýmra bæði um búnað og bækur.

 

Fjölbreytt starfssemi


Útlán hafa aukist mikið á frá því að safnið flutti á Garðatorg 7 úr Garðaskóla  árið 1998 eða úr 30  þús. eintökum í 68 þús.eintök á síðasta ári.  Á sama tíma hefur menningarstarf og þátttaka bókasafnsins í ýmsum menningarviðburðum aukist til muna. Má í því sambandi nefna  safnanótt, barnabókahátíðir, listadaga og norrænu bókasafnavikuna. Leshringur hefur starfað við safnið í tíu ár og sækja hann að jafnaði 12-15 konur. Þá kemur fjöldi fólks í bókasafnið á hverjum degi, ekki aðeins til  að fá lánaðar bækur, heldur líka til að lesa dagblöð og tímarit, nýta tölvuaðstöðu eða bara til að hitta mann og annan og spjalla.

 

Fræðsla fyrir börn

Eitt af hlutverkum safnsins er að hvetja til lesturs, miðla lestrarefni og sjá til þess að allir bæjarbúar hafi jafnan aðgang að bókum. Metnaðarfullt og blómlegt barnastarf er meðal annars liður í því og fjöldi barna úr grunn- og leikskólum bæjarins heimsækir safnið í viku hverri.

 

Garðbæingar eru hvattir til að leggja leið sína í safnið til að njóta þess sem þar er að finna.  Á heimasíðu bókasafnsins má finna ýmsan fróðleik fyrir börn og fullorðna ásamt upplýsingum um afgreiðslutíma.Oddný H. Björgvinsdóttir forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar flutti nokkur ljóð í tilefni dagsins.


Þórunn Þórsdóttir nemandi í Tónlistarskóla Garðabæjar lék á þverflautu fyrir viðstadda.


Áslaug Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar og Erla Jónsdóttir fyrrum bæjarbókavörður.


Ný lesstofa safnsins á 2. hæð.


Hafdís Ingimundardóttir og Rósa Þóra Magnúsdóttir starfsmenn bókasafnins.