14. jan. 2011

Sýning á verðlaunatillögum

Sýning á tillögum sem bárust í hönnunarsamkeppni um húsgögn í Hörpu verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands að Garðatorgi 1, föstudaginn 14. janúar og stendur til 6. mars 2011.
  • Séð yfir Garðabæ

Sýning á tillögum sem bárust í hönnunarsamkeppni um húsgögn í Hörpu verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands að Garðatorgi 1, föstudaginn 14. janúar og stendur til 6. mars 2011.

Síðastliðið sumar var efnt til hönnunarsamkeppni um tillögur að húsgögnum í almenningsrými í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Reykjavík. Samkeppnin var opin íslenskum hönnuðum og arkitektum og var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. Eitt af meginmarkmiðum samkeppninnar var að efla vitund um íslenska hönnun og stuðla að auknum sýnileika hennar. Alls bárust 23 tillögur í samkeppnina sem var opin íslenskum hönnuðum. Höfundar að verðlaunatillögunni eru þær Helga Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir innanhússarkitektar FHI. Auk þess fengu tvær tillögur til viðbótar sérstaka viðurkenningu.

Í samkeppnisgögnunum var lögð áhersla á að keppendur kynntu sér hönnun og efnisval hússins í heild sinni og hefðu til hliðsjónar við hönnun þess húsbúnaðar sem keppt var um. Húsið sækir form sitt til íslenskrar náttúru en það er hannað af arkitektastofunum Henning Larsen Architects í Danmörku og Batteríinu í Hafnarfirði.

Sjá einnig frétt á heimasíðu Hönnunarsafnsins.

 

Sýningar í Hönnunarsafninu

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi er einnig sýning á verkum Siggu Heimis iðnhönnuðar sem opnaði sl. haust og stendur út janúar mánuð. Sigga hefur á síðustu árum átt samstarf við heimsþekkt framleiðslufyrirtæki og söfn á sviði hönnunar. Gripir hennar hafa verið fjöldaframleiddir í mörg ár og hér gefst kærkomið tækifæri til að kynnast starfi iðnhönnuðar sem vinnur í alþjóðlegu umhverfi.  Sýning á tillögunum úr hönnunarsamkeppninni um húsgögn í Hörpu stendur sem fyrr segir til 6. mars nk. 

Heimasíða Hönnunarsafns Íslands.