22. des. 2010

Bekkjavædd gönguleið

Á vetrarsólstöðum var fyrsta ,,bekkjavædda" gönguleiðin formlega vígð í Garðabæ. Með þessu er þeim sem lakari eru til gangs og keyra ekki bíl, gert auðveldara að versla og njóta mannlífs og þjónustu í bænum.
  • Séð yfir Garðabæ

Á vetrarsólstöðum var fyrsta ,,bekkjavædda" gönguleiðin formlega vígð í Garðabæ. Gönguleiðin frá Jónshúsi um Litlatún að Garðatorgi er um 1,6 km á lengd og þar er nú búið að setja upp sjö bekki með um 300 m millibili.  Með þessu er þeim sem lakari eru til gangs og keyra ekki bíl, gert auðveldara að versla og njóta mannlífs og þjónustu í bænum.

 

Af þessu tilefni fór hópur fólks í gönguferð frá Jónshúsi í Sjálandshverfinu að Garðatorgi og staldraði við þar sem bekkir eru á leiðinni.   Með í för voru bæjarstjóri Garðabæjar og íþróttafulltrúi Garðabæjar ásamt fulltrúum frá Félagi sjúkraþjálfara og Félagi eldri borgara í Garðabæ.  Einnig voru fulltrúar fyrirtækja og einstaklinga með í för sem hafa gefið bekki á þessari gönguleið.  Staldrað var við bekkina á leiðinni og göngufólki var svo boðið upp á heitt kakó að lokinni göngu.


 

Verkefnið ,,Brúkum bekki"

Garðabær ásamt Félagi sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu, FSÖ, og Félagi eldri borgara í Garðabæ vinnur að því að fjölga bekkjum í bænum í samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. Með því er skapaður farvegur fyrir fólk og fyrirtæki til að ánafna eða gefa bekk til samfélagsins okkar til að bæta mannlífið í bænum.

 

Margar rannsóknir sýna fram á að eldra fólk hreyfir sig ekki nægilega miðað við ráðleggingar og eins vitum við að ganga er afar vinsæl og holl hreyfing. Með því að hafa hæfilegt bil á milli hvíldarbekkja getur eldra fólk og fólk sem á erfiðara með gang verið öruggt um að ofgera sér ekki.

 

Alls hafa nú verið gefnir átta bekkir til verkefnisins en sjö þeirra hafa verið settir upp á gönguleiðinni frá Jónshúsi að Garðatorgi með viðkomu í Litlatúni.


Gefendur bekkja á gönguleiðinni eru:
Félag eldri borgara í Garðabæ
Olís
Heyrnartækni ehf
Alyson JK Bailes
Hagkaup, Litlatúni
Laugarakur ehf
Veritascapital hf

 

Sjá einnig eldri frétt á heimasíðu Garðabæjar.