Fjölbreyttir jólatónleikar framundan
Á þessum tíma árs er mikið um að vera í tónlistarlífinu í Garðabæ. Framundan eru fjölbreyttir jólatónleikar sem Garðbæingar eru hvattir til að sækja.
Dagskrá í Tónlistarskólanum
Í Tónlistarskóla Garðabæjar eru haldnir jólatónfundir dagana 13. - 16. desember í sal Tónlistarskólans og æfingarsal að Kirkjulundi. Tónfundirnir eru haldnir síðdegis og fram á kvöld. Nánari upplýsingar og tímasetningar er hægt að sjá á heimasíðu Tónlistarskólans undir dagskrá. Miðvikudaginn 15. desember eru einnig haldnir burtfarartónleikar í sal skólans kl. 20.30 þar sem Rakel Gyða Pálsdóttir leikur á þverflautu.
Jólatónleikar gospelkórsins
Gospelkór Jóns Vídalíns heldur jólatónleika miðvikudaginn 15. desember í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ kl. 20. Í kórnum eru um 40 ungmenni á aldrinum 16-28 ára og gospelkórinn er samstarfsverkefni Vídalínskirkju og Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Á tónleikunum á miðvikudag er boðið upp á fjölbreytt lagaval allt frá klassískum gospellögum til nýlegrar popptónlistar. Píanóleikari og kórstjóri er Ingvar Alfreðsson. Miðasala er í FG frá kl. 18 á miðvikudaginn og miðaverð er 1000 kr. Ágóðinn rennur til verkefnis á vegum hjálparstarfs kirkjunnar. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu Garðasóknar.
Stórtónleikar í Vídalínskirkju - Dikta o.fl. - fimmtudag 16. desember kl. 20
Fimmtudagskvöldið 16. desember nk. verða haldnir stórtónleikar í Vídalínskirkju í Garðabæ. Hljómsveitin Dikta endurtekur leikinn frá því á síðasta ári og heldur órafmagnaða tónleika í Vídalínskirkju. Einnig koma fram á tónleikunum hljómsveitin Cliff Clavin og dúettinn Daníel Jón og Ylfa Marín.
Tónleikarnir tókust með eindæmum vel í fyrra og ætlunin er að þetta verði að árlegum viðburði. Forsala miða fer fram í versluninni Ilse Jacobsen í göngugötunni á Garðatorgi 3. Miðaverð er 2000 kr, húsið opnar kl. 20.
Mozart við kertaljós í Garðakirkju - þriðjudag 21. desember
Kammerhópurinn Camerarctica heldur sína árlegu kertaljósatónleika í kirkjum nú rétt fyrir jólin og verða tónleikarnir í Garðakirkju þriðjudagskvöldið 21. desember kl. 21.00 og taka um klukkustund í flutningi. Hópurinn hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart við kertaljós í átján ár og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu.
Hópurinn sem er að mestu leiti úr Garðabæ skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason, klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Pálsdóttir fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir og Guðrún Þórarinsdóttir víóluleikarar og Sigurður Halldórsson, sellóleikari. Aðgangseyrir 2000 kr og 1000 kr fyrir nemendur og eldri borgara. Frítt er inn fyrir börn, miðasala við innganginn. Sjá nánar hér í dagbókinni á heimasíðunni.
Kammerhópurinn Camerarctica