30. nóv. 2010

Verðlaun fyrir Comeniusar verkefni

Garðaskóli hlaut önnur verðlaun fyrir Comeniusar fyrirmyndarverkni 2008-2010 á 15 ára afmælishátíð Menntaáætlunar ESB 25. nóv. sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðaskóli hlaut önnur verðlaun fyrir fyrirmyndarverkni í Comeniusar samstarfinu 2008-2010 þegar 15 ára afmæli Menntaáætlunar ESB var fagnað 25. nóv. sl. Tíu verkefni voru tilnefnd og voru veitt verðlaun fyrir þrjú þeirra.

Comenius er skólastarfshluti Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Hlutverk þess er að efla gæðastarf í skólum og tryggja Evrópuvitund í menntun. Comenius hóf göngu sína á Íslandi árið 1995 og hefur notið mikilla vinsælda meðal kennara og starfsfólks skóla frá upphafi.

Sömdu matreiðslubók

Garðaskóli hefur tekið þátt í ýmsum Comeniusar verkefnum undanfarin áratug. Verkefnið sem hlaut verðlaun á hátíðinni heitir FOOD – CULTURE and HEALTH og var samvinnuverkefni Garðaskóla, skóla frá Teningen í Þýskalandi, La Broque í Frakklandi, Lahti í Finnlandi, Lleida á Spáni, Bari á Ítalíu og Tianjin í Kína.

Afrakstur verkefnisins er uppskriftabókin „International Cookbook“ sem nemendur frá öllum löndunum tóku þátt í að semja. Þeir söfnuðu uppskriftum frá heimalöndum sínum, prófuðu þær í skólaeldhúsunum og í gagnkvæmum heimsóknum þeirra hjálpuðust þau að við eldamennskuna. Einnig skrifuðu þeir um skólann sinn, heimabæ og eina fæðutegund sem er einkennandi fyrir viðkomandi land út frá næringar- og hollustugildi.

Matreiðslubók - einn afrakstur Comenius, alþjóðlegs samstarfs Garðaskóla og sex annarra skóla

Þeir þættir sem meðal annars voru hafðir að leiðarljósi við val á fyrirmyndarverkefnum var að árangur þeirra hefði verið sannreyndur og að verkefnin skildu eitthvað eftir sig.

Samstarfið heldur áfram

Í ljósi góðrar reynslu af samvinnu skólanna var ákveðið að sækja um styrk fyrir sameiginlegu Comeniusar verkefni sem unnið verður á árunum 2010 – 2012 en í millitíðinni hafði annar franskur skóli bæst í hópinn. Allir skólarnir sjö fengu styrk og hugmyndavinna er þegar hafin. Ætlunin er að búa til spil, nokkurs konar Trivial spurningaspil þar sem nemendur allra landanna búa til spurningar um lönd sín, menningu þeirra, landafræði, sögu o.fl. Einnig eru fyrirhuguð nemendaskipti á tímabilinu a.m.k. til þriggja landa, en ekki er að fullu frágengið hvert og hvenær.

Þess má geta að bókina má nálgast á vef Garðaskóla en einnig er hún til í Bókasafni Garðabæjar.


Frétt á vef Menntaáætlunar ESB um verðlaunin