22. okt. 2010

Fimleikastúlkur úr Stjörnunni

Evrópumót í hópfimleikum fer fram í Malmö í Svíþjóð dagana 19. – 24. október. Í unglingalandsliði stúlkna eru 7 stúlkur frá Stjörnunni.
  • Séð yfir Garðabæ

Evrópumót í hópfimleikum fer fram í Malmö í Svíþjóð dagana 19. – 24. október. Fjögur íslensk lið keppa þar í þremur mismunandi flokkum: unglingaflokki stúlkna, karlaflokki og kvennaflokki. Í fyrsta skipti er keppt í tveimur aldurshópum, unglinga og fullorðins og í fyrsta skipti er leyfilegt að senda landslið til keppni, hafa einungis verið félagslið hingað til.

 

Stúlkur úr Stjörnunni í unglingalandsliðinu

Í samráði við fimleikafélögin ákvað Fimleikasambandið að setja saman unglingalandslið stúlkna þar sem valdar yrðu bestu stúlkurnar frá fimleikafélögunum til æfinga og keppni. Úrvalshópur var settur saman í vor og æfði í sumar og í haust var 16 manna hópur valinn til að fara til Malmö. Þrír þjálfarar tóku að sér verkefnið: Jimmy Eksted yfirþjálfari Stjörnunnar, Gyða Kristmannsdóttir og Íris Svavarsdóttir. Í landsliðinu eru 7 stúlkur frá Stjörnunni. Niclaes Jerkeholt fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni sér um þjálfun karlaliðsins.

 

Komnar í úrslit

Íslensku stúlkurnar í unglingalandsliðinu hafa staðið sig vel það sem af er móti og eru komnar í úrslitakeppnina sem fer fram laugardaginn 23. október.  Á heimasíðu fimleikasambandsins er hægt að fylgjast nánar með árangri stúlknanna í unglingalandsliðinu. Sjá einnig umfjöllun á heimasíðu Stjörnunnar, www.stjarnan.is