17. sep. 2010

Íbúafundur og nafnasamkeppni

Garðabær, í samvinnu við rekstraraðila á Garðatorgi, boðar til íbúafundar um miðbæ Garðabæjar laugardaginn 9. okt. kl. 10.30-13.30. Samhliða verður efnt til samkeppni um nafn á "gamla Hagkaupshúsið"
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær, í samvinnu við rekstraraðila á Garðatorgi, stendur fyrir íbúafundi um miðbæ Garðabæjar laugardaginn 9. október nk. kl. 10.30-13.30. Fundurinn verður haldinn í „gamla Hagkaupshúsinu“ Garðatorgi 1. Samhliða er blásið til samkeppni um nýtt nafn á „gamla Hagkaupshúsið".

Leitað eftir hugmyndum bæjarbúa

Tilgangur fundarins er að leita eftir hugmyndum bæjarbúa um hvernig miðbærinn eigi að þróast. Spurt verður; annars vegar hvað hægt sé að gera til að efla líf í miðbænum við núverandi aðstæður og hins vegar hvernig miðbæ íbúar vilja sjá til framtíðar. Unnið verður í litlum hópum, í anda þjóðfundarins, með aðferð sem tryggir að öll sjónarmið komi fram.

 

Í viðtali í Garðapóstinum segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri að það sé í samræmi víð lýðræðisstefnu Garðabæjar að leita til íbúa þegar verið er að fjalla um jafn stór mál og miðbærinn er.  Allir Garðbæingar eru því hvattir til að taka daginn frá og nýta þetta tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt.

 

Gert er ráð fyrir að fundurinn standi í þrjár klukkustundir. Boðið verður upp á létt hádegissnarl og skemmtilega dagskrá fyrir börnin meðan fundurinn stendur yfir.

Samkeppni um nafn

Samhliða fundinum verður efnt til samkeppni um nýtt nafn á „gamla Hagkaupshúsið" við Garðatorg. Hægt er að skila inn tillögu á fundinum eða i þjónustuver Garðabæjar í Ráðhúsinu Garðatorgi 7..