2. sep. 2010

Fullorðinsfræðsla í Garðabæ

Símenntunarmiðstöðin Klifið tekur til starfa í Sjálandsskóla nú í september. Með tilkomu Klifsins gefst Garðbæingum tækifæri til að fara á fjölbreytt og spennandi frístundanámskeið í heimabyggð
  • Séð yfir Garðabæ

Símenntunarmiðstöðin Klifið tekur til starfa í Sjálandsskóla nú í september. Með tilkomu Klifsins gefst Garðbæingum tækifæri til að fara á fjölbreytt og spennandi frístundanámskeið í heimabyggð. Námskeiðin spanna allt frá hóptímum í afródansi, badminton eða stafagöngu til tónlistar, tölvu, prjóna, myndlistar, sauma, skartgripa, haustkransa, leiðtoga- og fluguhnýtinganámskeiða.

Klifið hefur aðsetur í húsnæði Sjálandsskóla við Löngulínu 8. Húsnæðið er vel tækjum búið og hentugt fyrir starfsemi af þessu tagi.

Nám við hæfi alla ævi

Einkunnarorð Klifsins eru nám við hæfi alla ævi. Með þeim orðum er vísað til þess að nám er æviverk og að það er aldrei of seint að bæta við sig þekkingu.

Skráning er hafin á haustnámskeiðin á vef Klifsins. Á vefnum má nálgast upplýsingar um námskeið og tímasetningar.

Klifið er framtak þriggja áhugasamra kvenna í Garðabæ sem vilja efla enn frekar mannlíf í bænum.

Starfssemin verður að hluta til árstíðabundin og munu fleiri námskeið bætast við þegar líða tekur á haustið. Því er um að gera að fylgjast með á www.klifid.is  og á Facebook síðu Klifsins: Klifið - Símenntun í Garðabæ.
http://www.facebook.com/pages/Gardabaer-Iceland/Klifid-Simenntun-i-Gardabae/109236332466281 
 

Sjá einnig á vef Garðabæjar - menning og tómstundir/fullorðinsfræðsla