Síðasta sýningarhelgi
Sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands, „Úr hafi til hönnunar“ lýkur sunnudaginn 5. september. Undirbúningur næstu sérsýningar safnsins er á lokastigi en það verður sýning á verkum Sigríðar Heimisdóttur iðnhönnuðar.
Góð aðsókn í sumar
Góð aðsókn hefur verið að sumarsýningu safnsins þar sem sýndir eru ólíkir munir úr fiskleðri eftir íslenska og erlenda hönnuði. Síðasta tækifærið til að skoða sýninguna er nú um helgina.
Fjölbreytt hönnun Siggu Heimis
Næsta sérsýning safnsins verður opnuð laugardaginn 11. september. Á henni verða sýndir fjölbreyttir munir hannaðir af iðnhönnuðinum Sigríði Heimisdóttur eða Siggu Heimis eins og hún kallar sig.
Sigga Heimis er fædd árið 1970 og hefur frá því að hún útskrifaðist frá Istituto Europeo di Design og Domus Academy í Mílanó unnið ólík verkefni fyrir fjölda framleiðenda. Hún var ráðin hönnuður hjá IKEA í upphafi þessa áratugar og þar kynntist hún þeirri hugmyndavinnu og aðferðarfræði sem þessi gríðarstóri framleiðandi á heimsmarkaði hefur skapað sér.
Í upphafi árs 2008 var Sigga ráðin hönnunarstjóri hjá danska húsgagnaframleiðandanum Fritz Hansen og vann þar með fjölda hönnuða. Sigga hefur að auki starfað með fjölda erlendra háskóla víða um heim og unnið verkefni fyrir Vitra hönnunarsafnið í Þýskalandi og Corning glerlistasafnið í New York ásamt því að hanna í samstarfi við íslenska framleiðendur.
Sjá nánar á vef Hönnunarsafns Íslands.