Nemakort komin í sölu
Nemakort Strætó eru nú aftur komin í sölu á www.straeto.is en þau standa til boða nemendum með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu sem eru í fullu námi við framhalds- og háskóla á svæðinu.
Nemakortin nutu mikilla vinsælda á síðasta skólaári, þegar tæplega fimm þúsund námsmenn nýttu sér þennan kost. Í könnun sem gerð var meðal notenda síðasta vetur af Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands kom fram að yfir 90% voru ánægð með nemakortið og um 85% töldu það hafa hvetjandi áhrif á notkun þeirra á strætó. Samkvæmt könnuninni fara nemakorthafar að jafnaði níu ferðir vikulega með strætó.
Sala á nemakortunum hófst í dag á www.straeto.is og geta þeir sem eiga kost á að kaupa nemakort pantað þau þar. Hægt er að kaupa kort sem gilda ýmist eina önn eða allt skólaárið. Þau fyrrnefndu kosta 8.000 krónur en kort sem gilda allt skólaárið kosta 15.000 krónur.
Taka þarf fram að upplýsingar um skráða nemendur hafa ekki borist frá öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur viðkomandi skóla þurfa að bíða með pöntun þar til skólinn hefur skilað inn gögnum til Strætó bs. Á vef Strætó er listi yfir þá skóla sem hafa skilað upplýsingum um nemendur.
Það eru sveitarfélögin sjö á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes, sem bjóða námsmönnum sveitarfélaganna þessi sérkjör.
Nemakortin eru hagstæður kostur fyrir námsmenn því þau eru umtalsvert ódýrari en strætókort sem gilda í jafnlangan tíma. Mismunurinn á fullu verði strætókorts og verði nemakortsins er greiddur af því sveitarfélagi sem viðkomandi nemandi hefur lögheimili í.