12. ágú. 2010

Nýjar gönguleiðir

Skógræktarfélag Garðabæjar vekur athygli á nýjum útivistarstígum sem skógræktarhópar sumarsins lögðu
  • Séð yfir Garðabæ

Nýir útivistarstígar hafa verið gerðir í sumar af skógræktarhópum bæjarins.

Nýr stígur fyrir Hlíðarhorn vestur fyrir enda Vífilsstaðahlíðar lokar hringnum ef gengið er inn með Vífilsstaðavatni, upp í Gunnavatnsskarð, um Grunnuvötn, niður með Vífilsstaðahlíð og fyrir Hlíðarhorn að bílastæðinu við lækinn þ.e. aðkomu Vífilsstaðavatns. Við Grunnuvötn er hægt að tína ber, bæði bláber og krækiber, skoða Vífilsstaðaselið og víðsýnt er frá brún Vífilsstaðahlíðar. Gönguleiðin er númer 6 á Útivistarkortinu gönguleiðir í Garðabæ og göngutími um 90 mín.


Vífilsstaðavatnshringurinn: Þeir sem vilja bæta við hringinn umhverfis Vífilsstaðavatn, geta lengt göngutúrinn með því að fara inn á stíginn fyrir Hlíðarhorn og sveigja yfir Elliðavatnsveg á lækjarstíg sunnan Vífilsstaða og loka hringnum t.d. á Vífilsstöðum. Göngutími þessarar hringleiðar er um 60 mín.

Veljið öruggar gönguleiðir, best fjarri umferðagötum

Ef gengið er upp með Vífilsstaðavegi og um brúna yfir Reykjanesbraut, ætti göngufólk að velja sér leið um hlaðið á Vífilsstöðum í stað þess að ganga utan í vegkanti Vífilsstaðavegar, sem er hættuleg gönguleið. Stígurinn austur frá Vífilsstöðum hefur nýlega verið lagfærður. Einnig er nýi göngustígurinn meðfram Vetrarbraut tenging á þessa gönguleið gegnum Vífilsstaði, t.d. fyrir íbúa í Hnoðraholti.

Smalaholtið gefur orðið fleiri möguleika til gönguleiða. Þar hafa verið lagðir tveir nýir göngustígar. Annar var opnaður í fyrra og liggur hann frá raflínumastri vestan í Smalaholtinu upp hlíðina og síðan austur með hábrún holtsins og endar við reiðstíg. Í sumar var lagður stígur neðar í holtinu til baka frá enda fyrri stígsins fjær reiðstígnum. Neðri stígurinn liggur gegnum skógræktarreiti ýmissa félagasamtaka í Garðabæ og frá honum eru tengingar að rjóðrum í reitunum þar sem eru borð og bekkir sem félögin hafa sett upp.

Gangan eftir þessum tveimur stígum tekur um 30 – 40 mínútur. Við efri stíginn hefur verið komið fyrir bekkjum þar sem hægt er að njóta stórkostlegs útsýnis yfir Vífilsstaðavatn, Garðabæ, Hafnarfjörð, Flóann og Reykjanesið.

Nýr útivistarstígur austur frá Vífilsstöðum

Nýr göngustígur austur frá Vífilsstöðum