29. júl. 2010

Umhverfisviðurkenningar 2010

Eigendur fjögurra lóða íbúarhúsnæðis hlutu í gær viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi árið 2010. Arnarás var valinn snyrtilegasta gatan.
  • Séð yfir Garðabæ

Afhending viðurkenninga fyrir snyrtilegt umhverfi árið 2010 fór fram á Garðatorgi í gær. Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar afhentu viðurkenningarnar og buðu til kaffisamsætis á eftir á torginu, þar sem myndir úr görðunum og götunni var varpað upp.

Bæjarstjórn ákvað, að fenginni tillögu umhverfisnefndar, að veita eftirtöldum viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi árið 2010 í Garðabæ:

Fyrir snyrtilegar lóðir íbúðarhúsnæðis, eigendur að;

  • Blikanesi 13
  • Boðahlein 25
  • Holtsbúð 39
  • Lindarflöt 1.

Fyrir snyrtilega lóð atvinnuhúsnæðis, Veritas Capital hf. við Hörgatún.

Snyrtilegasta gatan; Arnarás.

Sérstök viðurkenning fyrir snyrtilegt, sameiginilegt opið svæði,  fjölbýlishúsin Norðurbrú 2, 4 og 6, Strandvegur 24 og 26 og Sautjándajúnítorg nr. 1, 3, 5, og 7.

 

Myndasýning af lóðunum sem veittar voru viðurkenningar fyrir.

 

Lýsingarnar hér á eftir eru úr umsögn umhverfisnefndar um lóðirnar.

Lóðir íbúðarhúsnæðis

Blikanes 13

Blikanes 13 - viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi 2010

Lóðin er opin og stílhrein og fellur vel að húsinu. Sérstaða hennar er hve opin hún er, bæði framlóð við götu og baklóðin sem er með stórri grasflöt þar sem hæð gróðurs er haldið niðri á lóðamörkum og útsýni því gott. Garðurinn er smekklega uppgerður með tjörnum og fjölbreyttum íverustöðum.

Boðahlein 25

Boðahlein 25 - viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi 2010

Lóðin að Boðahein 25 er blómum skrýdd, lítil og snyrtileg. Eigendur sjá sjálfir fyrir sumarblómum og matjurtum. Þetta er eldri garður sem er einstaklega vel við haldið og blómlegur. Boðahlein fékk viðurkenningu sem snyrtilegasta gatan 1990.

Holtsbúð 39

Holtsbúð 39- viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi 2010

Lóðin að Holtsbúð 39 er sérstaklega snyrtileg eldri lóð, þar sem grenitrjám hefur verið haldið formklipptum sem setur svip á framlóðina. Af baklóð er gott útsýni til norðurs, þar sem trjágróður er þannig klipptur. Safnkassi er á baklóð.

Lindarflöt 1

Lindarflöt 1 - viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi 2010
Sérstaklega snyrtileg lóð, enda sá eigendur sjálfir um og rækta upp sumarblómin Nokkrir dvalarstaðir eru umhverfis húsið og á lóðinni hefur verkfæraskúr, safnkassa og þvottasnúrum verið smekklega komið fyrir. Athygli vöktu gróskumiklir burknar og grasflötin á baklóð sem líkist green á golfvelli.


Viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar hlýtur í ár:

Veritas Capital hf. við Hörgatún

Lóð Veritas Capital fékk viðurkenningu sem snyrtileg lóð atvinnuhúsnæðis 2010

Lóð fyrirtækisins við Hörgatún hefur alla tíð verið í góðri umhirðu, með vel hirtum grasflötum og fjölbreyttum trjágróðri. Lóðin hefur verið góð fyrirmynd, enda staðsett í hjarta bæjarins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eigendur hennar eru tilnefndir af umhverfisnefnd fyrir snyrtilegt umhverfi en þeir hlutu einnig viðurkenningu árin 1988, 1989, 1993 og 1996.


Eftirtaldir hljóta viðurkenningu fyrir snyrtilega götu og opið svæði:

Snyrtilegasta gatan í Garðabæ 2010 er fjölbýlisgatan Arnarás

Arnarás - snyrtilegasta gatan 2010

Lóðir við Arnarás eru fullfrágengnar og sérstaklega snyrtilegar. Viðurkenningarskilti verður sett upp í götunni.


Fyrir sameiginlegt opið svæði hljóta viðurkenningu fjölbýlishúsin Norðurbrú 2, 4 og 6, Strandvegur 24 og 26 og Sautjándajúnítorg nr. 1, 3, 5, og 7.

Viðurkenning fyrir snyrtilegt sameiginlegt opið svæði 2010. Norðurbrú 2-6, Strandvegur 24-26 og Sautjándajúnítorg 1-7

Þetta sameiginlega opna svæði er skipulagt sem ein heild, en ekki stúkað niður í lóðaparta. Fjölbýlishúsin við göturnar þrjár, umliggja svæðið á þrjá vegu sem er opið mót suðri. Svæðið er frágengið með göngustígum, gróðri og leiktækjum sem verið var að koma fyrir er umhverfisnefnd var í skoðunarferð sinni. Viðurkenningarskilti verður komið upp á svæðinu.