Góð þátttaka í Kvennahlaupinu
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og fyrsta sinn, laugardaginn 19. júní sl.. Góð þátttaka var í hlaupinu að venju. Um 15.500 konur tóku þátt á 94 stöðum út um allt land og á um 18 stöðum erlendis. Um 6000 konur hlupu í Garðabænum sem er um 500 fleiri en í fyrra.
Hlaupið hefur fyrir löngu öðlast sess í huga margra sem fastur þáttur í tilverunni og er núna einn vinsælasti almenningsíþróttaviðburður á landinu. Boðið var upp á mismunandi vegalengdir allt frá 2 km upp í 21 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum þar sem ömmur, mömmur, dætur og vinkonur hreyfðu sig og skemmtu sér saman. Markmið Kvennahlaupsins frá upphafi er að hvetja og styðja konur á öllum aldri til aukinnar hreyfingar og heilsueflingar, ekki aðeins þennan eina dag heldur sem flesta daga ársins.
Á heimasíðu Sjóvá má sjá margar skemmtilegar ljósmyndir frá hlaupinu.