18. jún. 2010

Bæjarlistamaður Garðabæjar 2010

Agnar Már Magnússon tónlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2010. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti Agnari Má starfsstyrk listamanns við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
  • Séð yfir Garðabæ

 

Agnar Már Magnússon tónlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2010.  Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti Agnari starfsstyrk listamanns við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.


Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt starfsstyrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem hlýtur starfsstyrkinn hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. Bæjarstjórn Garðabæjar velur bæjarlistamann í samráði við menningar- og safnanefnd bæjarins.

 

Agnar Már Magnússon djasspíanóleikari er fæddur árið 1974 og hefur komið víða við á ferli sínum. Agnar hóf tónlistarnám sitt sex ára gamall við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lagði fyrst stund á orgelleik en síðar píanó. Sextán ára lá leið hans í tónlistarskóla FÍH þar sem hann lauk prófi í djasspíanóleik með ágætiseinkunn. Í beinu framhaldi fluttist Agnar til Hollands þar sem hann lauk háskólaprófi í djasspíanóleik og kennslu frá Conservatorium van Amsterdam (1995-1999). Um þær mundir tók Agnar þátt í tónleikum á vegum skólans sem leiddu til kynna hans við virtan bandarískan djasspíanista Larry Goldings. Goldings bauð Agnari að nema hjá sér í New York, sem hann gerði. Í New York komst Agnar í kynni við fleiri þekkta tónlistarmenn á sviði djassins en þau kynni leiddu m.a. til útgáfu fyrsta geisladisks hans sem ber nafnið 01. Sá diskur var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2001. Síðan hefur Agnar ásamt öðrum tónlistarmönnum gefið af sér fjölda geisladiska til viðbótar.  Margir þessara diska hafa hlotið tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna og hefur Agnar tvisvar verið tilnefndur fyrir lag ársins í jazz flokki. Árið 2007 kom út diskurinn Láð sem hefur hlotið lof gagnrýnenda. Auk þess hlaut tónverkið Daboli íslensku tónlistarverðlauin. Árið 2009 kom út geisladiskurinn Kvika sem fékk einnig lofsamlegar viðtökur.

 

 

Agnar hefur starfað með heimsklassa djasstónlistarmönnum. Þar má nefna Bill Stewart, Ben Street, Seamus Blake, Chris Cheek, Ingrid Jensen, Frank Foster, Drew Gress og John Hollenbeck. Auk þessa hefur Agnar á tónlistarferli sínum unnið til verðlauna svo sem „Outstanding Musicianship Award“ frá Berklee tónlistarháskólanum í Boston og komist í undanúrslit í Alþjóðlegu djass-píanókeppninni Martial Solal í París haustið 2002. Agnar hefur útsett lög fyrir geislaplötur og söngleiki, starfað með og útsett fyrir Stórsveit Reykjavíkur, leikið á tónleikum hérlendis sem erlendis, verið píanóleikari og annast tónlistarstjórn í leikhúsi, m. a. í Söngvaseið.  Agnar Már Magnússon hélt meðal annars einleikstónleika á Jazzhátíð Garðabæjar sl. vor þar sem hann fékk framúrskarandi dóma fyrir. Agnar starfar nú sem djasspíanisti en kennir jafnframt píanóleik við djassdeild Tónlistarskóla FÍH.