Kirkjuból fær Grænfánann
Í vikunni var haldin árleg fjölskylduhátíð foreldrafélags Kirkjubóls, sem var að þessu sinni tvöföld hátíð þar sem leikskólinn fékk afhentan Grænfánann. Skólar á grænni grein - Grænfáninn er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum.
Ef skólar vilja komast á græna grein í umhverfismálum verða þeir að leitast við að stíga skrefin sjö og þá fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö árin, og er sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
Skrefin sjö sem Kirkjuból leitaðist við að stíga, og eru jafnframt markmið verkefnisins, eru eftirfarandi:
• Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
• Efla samfélagskennd innan skólans.
• Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
• Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
• Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
• Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
• Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
Grænfáninn sem umhverfismerki nýtur víða virðingar í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Grænfáninn á Íslandi er á vegum Landsverndar sem hefur í áratug verið aðili að alþjóðlegum samtökunum Foundation for Environmental Education in Europe (FEEE). Samtökin sjá um fimm mismunandi umhverfisverkefni í Evrópu og er Grænfáninn eitt af þeim.