26. maí 2010

Nýja fimleikahúsið tekið í notkun

Nýja fimleikahúsið við Ásgarð var formlega tekið í notkun í gær. Fimleikahúsið er 3440 m2 að flatarmáli og er byggt við Íþróttamiðstöðina í Ásgarði.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýja fimleikahúsið við Ásgarð var formlega tekið í notkun í gær. Fimleikahúsið er 3440 m2 að flatarmáli og er byggt við Íþróttamiðstöðina í Ásgarði. Í máli Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra við vígslu hússins í gær kom fram að Garðbæingar hafa með tilkomu þess eignast eitt glæsilegasta fimleikahús landsins sem þeir eiga skuldlaust en húsið var byggt án lántöku.


Við hönnun hússins var haft að leiðarljósi að það stæðist samanburð við það besta sem þekkist í greininni. Haft var samstarf við fimleikadeild Stjörnunnar við hönnun þess en yfirþjálfari deildarinnar Jimmy Ekstad var meðal ráðgjafa við hönnunina. Í húsinu verður aðsetur fimleikadeildar Stjörnunnar auk þess sem lögð var áhersla á að húsið nýttist til fjölbreytts íþróttastarfs með aðgengi skóla, leikskóla og eldri bæjarbúa.


Nýbyggingin samanstendur annars vegar af fimleikahúsi og hins vegar af tengibyggingu sem tengir saman alla starfsemi í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Aðkoma að íþróttamiðstöðinni er um nýjan inngang sem tengir saman eldra íþróttahús, sundlaug og fimleikahúsið.


Garðbæingar sýndu mikinn áhuga á að sjá þetta nýja mannvirki í bænum og fylltu áhorfendapalla þess við vígslu hússins og nutu sýningar frá fimleikadeild Stjörnunnar.


Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ ávarpaði gesti hátíðarinnar og sagði m.a. að nýja fimleikahúsið væri til marks um það hversu vel væri búið að íþróttum í Garðabæ og það öfluga íþróttastarf sem þar færi fram.


Arkitektar hússins eru arkitektur.is, um verkfræðihönnun sá VSB Verkfræðistofa ehf. og aðalverktaki við byggingu þess var ÞG Verktakar ehf.


 

Upplýsingar um mannvirkið.

 

Frá vígslu fimleikahússins í Ásgarði 25. maí 2010

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs klippa á borða og taka þar með nýja fimleikahúsið formlega í notkun.

Frá vígslu fimleikahússins í Ásgarði 25. maí 2010

Stúlkur úr fimleikadeild Stjörnunnar sýna æfingar

Frá vígslu fimleikahússins í Ásgarði 25. maí 2010

Atriði frá fimleikadeild Stjörnunnar